Landsbankinn nýr eigandi Ístaks

Landsbankinn eignaðist í gær 99,9% hlutafé í verktakafyrirtækinu Ístaki, sem áður var dótturfélag danska verktakafyrirtækisins E. Phil&Søn A/S en það var lýst gjaldþrota mánudaginn 26. Ágúst sl.  Kaupverð er trúnaðarmál samkvæmt fréttatilkynningu frá bankanum. Landsbankinn er stærsti lánveitandi Ístaks og vill með þessu skapa trúverðugt eignarhald á félaginu þannig að það geti áfram sinnt sinni starfsemi  og staðið við skuldbindingar sínar.  Ný stjórn hefur þegar verið skipuð og er tekin til starfa.

Rekstrar- og verkefnastaða Ístaks er góð og þeir erfiðleikar sem móðurfélagið E.Phil&Søn hefur átt við að glíma tengjast með engum hætti starfsemi Ístaks. Það er því mat Landsbankans að með því að kaupa Ístak sé best tryggð  áframhaldandi starfsemi félagsins, hagur þess, starfsmanna, birgja, verkaupa og bankans sem lánveitanda.

Ístak mun samkvæmt því samkomulagi sem gert hefur verið við skiptastjóra, semja við verkkaupa þeirra verkefna sem félagið sinnti fyrir hönd E.Pihl&Søn, taka yfir verksamninga og verkábyrgðir og ljúka verkefnum í eigin nafni.

Landsbankinn mun bjóða fyrirtækið til sölu fjárfestum með nauðsynlega þekkingu og fjárfestingargetu eins fljótt og auðið er. Samkeppniseftirliti hefur verið gerð grein fyrir kaupunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir