Landsmót hestamanna 2026 verður haldið á Hólum í Hjaltadal

Frá Landsmóti hestamanna á Hólum 2016. Mynd: ÓAB.
Frá Landsmóti hestamanna á Hólum 2016. Mynd: ÓAB.

Á fundi stjórnar Landssambands hestamanna sl. mánudag var ákveðið að Landsmót færi fram  á Hólum í Hjaltadal 2026 og verður gengið til samninga við Hestamannafélagið Skagfirðing um mótshaldið á grunni fyrirliggjandi samninga við Landsmót 2018, 2022 og 2024.

Á vef LH kemur fram að stjórn LM ehf. hafi auglýst eftir mótshöldurum fyrir árið 2024 og bárust þrjár umsóknir frá hestamannafélögunum Skagfirðingi, Fáki, sem býður mótssvæði sitt í Víðidal og hestamannafélögunum á Suðurlandi, sem bjóða mótsvæðið á Rangárbökkum en Landsmót hafa verið haldin á öllum þremur stöðunum með miklum ágætum.

Þegar heimsfaraldurinn Covid19 skall á var mótið sem halda átti á Rangárbökkum árið 2020 fært til 2022 og að sama skapi var mótið sem halda á í Spretti 2022 fært til 2024. Umsóknaraðilum var gefinn kostur á að færa umsókn sína frá árinu 2024 til 2026. Allir þrír umsækjendurnir gerðu það.

Landsmót var haldið á Hólum í Hjaltadal 1966 og 2016 og segir í frétt LH að félagslegt réttlæti hafi ráðið för við ákvörðun mótsstaðar. „ Það að landsmótin séu haldin í mismunandi landshlutum styrkir greinina og viðkomandi svæði hverju sinni auk þess sem það mun hafa jákvæð áhrif á hestabraut Háskólans á Hólum, sem er æðsta menntastofnun íslenska hestsins í heiminum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir