Látum sönginn hljóma
Geisladiskur með söng Karlakórs Bólstaðarhlíðarhrepps við undirleik Hljómsveitar Skarphéðins H. Einarssonar er kominn í sölu. „Árið 2013 var aðalverkefni Karlakórs Bólstaðarhlíðarhrepps söngdagskrá með lögum Geirmundar Valtýssonar en lögin eru útsett af Rögnvaldi Valbergssyni. Undirleik annaðist hljómsveit Skarphéðins H. Einarssonar. Söngdagskráin fékk frábærar móttökur og var ákveðið að gefa út valin lög úr dagskránni,“ segir í fréttatilkynningu frá kórfélögum.
Geisladiskurinn „Látum sönginn hljóma“ var tekinn upp í janúar- júní 2014. Upptökustjóri var Rögnvaldur Valbergsson og aðalupptökustaður Félagsheimilið Húnaver. Á diskinum eru fjórtán lög eftir Geirmund Valtýsson, þar af eitt nýtt lag. Það er lagið „Heilög jól“ lag Geirmundar við ljóð Sigurðar Hansen. Einsöngvari í því lagi er Hugrún Sif Hallgrímsdóttir.
„Látum sönginn hljóma“ er til sölu hjá kórfélögum en þeir munu ganga í hús og bjóða diskinn til sölu . Geisladiskurinn er verðlagður á 2.000 kr.