Laugarmýri með hæsta styrk hjá Atvinnumálum kvenna

Styrkjum til atvinnumála kvenna var úthlutað þann 19.maí og fengu 35 verkefni styrki að upphæð kr. 35.000 milljónir. Þorsteinn Víglundsson, velferðar- og húsnæðismálaráðherra afhenti styrkina í athöfn sem fór fram í Hörpu. Í ár bárust 350 umsóknir og hefur ráðgjafarnefnd metið umsóknir á undanförnum vikum. Nokkur verkefni í Skagafirði hlutu náð fyrir augum dómnefndar og fékk Ragnheiður Þórarinsdóttir á Laugarmýri hæsta styrk eða kr. 4.000.000 fyrir verkefnið Samrækt
Styrkjum til atvinnumála kvenna hefur verið úthlutað síðan 1991 og eru ætlaðir konum sem vinna að góðum viðskiptahugmyndum og verkefnum. Skilyrði styrkveitinga eru þau að verkefnin séu í meirihlutaeigu kvenna, stjórnað af þeim og feli í sér nýnæmi eða nýsköpun.
Ekki er nauðsynlegt að vera með starfandi fyrirtæki til að sækja um styrk og því er heimilt að sækja um vegna verkefna á byrjunarstigi en einnig geta þær konur sótt um styrk sem eru að þróa nýjungar í starfandi fyrirtækjum. Unnt er að sækja um styrki til gerðar viðskiptaáætlunar, vegna markaðssetningar, vöruþróunar, hönnunar og vegna launakostnaðar en ekki eru veittir styrkir til framkvæmda eða vegna stofnkostnaðar.
Hæstu styrki hlutu þær Ragnheiður Þórarinsdóttir fyrir verkefnið Samrækt sem snýst um að byggja upp samræktarkerfi fyrir fiskeldi og grænmetisræktun, Asco Harvester fyrir verkefnið Asco Harvester sjávarsláttuvélina, Hanna Jónsdóttir fyrir verkefnið Hjúfra - örvandi og umvefjandi ábreiða fyrir fólk með minnisglöp og alzheimer og Verandi fyrir verkefnið VERANDI- framleiðsla á húð-og hárvörum úr endurnýttum hráefnum.
Fjórir styrkir voru veittir til frumkvöðlakvenna í Skagafirði og voru það þær Auður Björk Birgisdóttir, Kristín Sigurrós Einarsdóttir, Jóhanna Friðriksdóttir sem fengu styrk til gerðar viðskipaáætlunar og fyrirtækið Samrækt að Laugarmýri sem fékk hæstan styrk eða 4 milljónir.
Auður Björk er með verkefnið Infinity blue þar sem markmið verkefnisins er að setja á laggirnar yndisferðaþjónustufyrirtæki í Skagafirði sem bætir í flóru afþreygingar sem fyrir er á staðnum. Gestum á ferð um Skagafjörð er boðið upp á miðnætursund og aðgang að heilsulind. Infinity blue eru róandi miðnæturböð í sundlauginni á Hofsósi sem er ein af vinsælustu og fallegustu sundlaug landsins með stórbrotnu útsýni yfir Skagafjörð og Drangey.
Kristín Sigurrós Einarsdóttir fékk styrk til að vinna viðskiptaáætlun vegna verkefnisins Söguskjóðan sem gengur út að á stofna fyrirtæki á Norðurlandi vestra sem sérhæfir sig í söguferðaþjónustu, það er söguferðum með lifandi leiðsögn. Hannaðar verða ferðir þar sem sagnaarfur svæðisins er nýttur á fjölbreyttan hátt. Auk þess að leggja áherslu á sögur í ferðum sínum mun fyrirtækið leggja áherslu á hægláta og vistvæna ferðaþjónustu og sérstöðu svæðisins, m.a. með því að bjóða eingöngu upp á mat úr héraði í ferðunum.
Jóhanna H. Friðriksdóttir á Varmalæk, fékk styrk til gerðar viðskiptaáætlunar vegna hugmyndar um að byggja hestsundlaug og vaðlaug ásamt þurkklefa fyrir hross til að nýta heitt vatnið sem er á staðnum.
Kjörhitastig hestasundlauga er um 15°C, heppileg stærð laugar um 40 m. á leng og 3 m. á dýpt, svo hestarnir geti synt fram og til baka þar sem ferðunum fjölgar með auknu þoli hestsins. Aflíðandi halli verður ofan í laugina svo auðvelt sé að teyma hrossin út í laugina og upp úr henni líka. Í vaðlauginni þjálfast hesturinn með því að ganga í vatninu og styrkir þannig aðra vöðva heldur en í sundi.
Eftir sundið þurfa hrossin að fara í þurkklefa með hitalömpum sem þurrkar þau. Hitalamparnir hita einnig upp vöðvana og skila hestinum mjúkum og sáttum til eiganda síns.
Ragnheiður Þórarinsdóttir og Garðyrkjustöðin Laugarmýri fengu hæstan styrk, eða fjórar milljónir vegna verkefnisins Samrækt en framkvæmdastjórar Garðyrkjustöðvarinnar Laugarmýri (www.laugarmyri.is) í Skagafirði og Samræktar ehf. (www.samraekt.is) hafa sameinast um stofnun fyrirtækisins Samrækt-Laugarmýri með það markmið að stækka framleiðslurýmið að Laugarmýri um 1.000 m2 og byggja upp samræktarkerfi (e. Aquaponics). Samrækt byggir á fiskeldi og grænmetisræktun í sama kerfinu þar sem næringarríkt affallsvatn frá fiskunum er notað sem áburður fyrir plönturnar. Aðferðin hefur hlotið vaxandi athygli úti um allan heim á undanförnum misserum. Fjölmörg smærri kerfi hafa verið byggð í Evrópu á undanförnum misserum aðallega til rannsókna en fyrstu sprotafyrirtækin eru að setja upp framleiðslukerfi.
Lista yfir alla styrkhafa má nálgast á heimasíðu verkefnisins www.atvinnumalkvenna.is
Á undanförnum árum hafa styrkveitingarnar stutt við þróun fjölmargra nýrra fyrirtækja sem skapa störf, samfélaginu til hagsbóta. Einnig er styrkveiting sem þessi mikil hvatning fyrir styrkhafa sem er ekki síður mikilvæg þegar á hólminn er komið.