Laxveiðin fer vel af stað

Veiði hófst í Blöndu 5. júní. Mynd:FE
Veiði hófst í Blöndu 5. júní. Mynd:FE

Nú er laxveiðin að komast á fullan skrið og eru húnvetnsku laxveiðiárnar að opna ein af annarri. Veiði hófst í Blöndu þann 5. júní, Miðfjarðará opnaði síðastliðinn mánudag og Laxá á Ásum á þriðjudag. Þá munu Víðidalsá og Vatnsdalsá opna á morgun, laugardag og Hrútafjarðará þann 1. júlí.

Vefur Landsambands veiðifélaga birti fyrstu vikutölur sínar í gær. Samkvæmt þeim höfðu veiðst 20 laxar í Miðfjarðará í lok miðvikudagsins og sami fjöldi í Blöndu. Á veiðivefnum Vötn og veiði kemur reyndar fram, í viðtali við Ingólf Ásgeirsson, leigutaka í Blöndu, að þar hafi 29 laxar verið komnir á land á þriðjudagskvöld, svo eitthvað ber tölum ekki saman. Á sama vef segir frá því að stærsti lax sumarsins til þessa hafi veiðst í Laxapolli í Austurá í Miðfirði og var hann 98 sm. „Heildarmyndin virðist vera sú, að það er ekkert allt vaðandi í laxi, en það er þokkalegur reytingur af stórlaxi, ef til vill meira en menn þorðu að vona og svo hefur smálax verið að sýna sig með vaxandi straumi,“ segir um laxveiði sumarsins á landinu á Vötn og veiði á miðvikudag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir