Leggst eindregið gegn hugmyndum um eitt lögregluembætti

Lögreglufélag Norðurlands vestra leggst eindregið gegn hugmyndum innan embættis ríkislögreglustjóra um eitt lögregluembætti og tekur þar af leiðandi undir með ályktun félaga sinna á Austur- og Suðurlandi. Á fundi félagsins í gær kom fram að fundarmenn telji að með þessu nýjasta útspili sé verið að afvegaleiða umræðuna og veki jafnframt athygli á því að núverandi skipulag lögreglu sé einungis frá árinu 2015.

Þá fagnar fundurinn ályktun stjórnar Landssambands lögreglumanna og skorar á nýjan dómsmálaráðherra, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, að taka ákveðið á málum Ríkislögreglustjóra.

Tilefni þessara ályktunar LNV eru ummæli Jóns F. Bjartmarz, yfirlögregluþjóns hjá embætti ríkislögreglustjóra í fréttum RÚV að skipulag lögreglu hafi gengið sér til húðar og sameina ætti öll lögregluembættin í landinu en þannig væri hægt að koma í veg fyrir togstreitu og átök um fjármuni. „Ég sé það þannig fyrir það að lögreglan verði ein stofnun. Þannig losnum við út úr því að vera með alla þessa togstreitu og þessi átök um fjármuni og verkefni. Þetta á að vera ein heild,“ sagði Jón jafnframt í viðtalinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir