Lengi lifi brúðuleikhús!

Brúðulistahátíðin HIP FEST 2024 (Hvammstangi International Puppetry Festival) verður haldin á Hvammstanga dagana 21.-23. júní. Hátíðin er haldin annað hvert ár en þetta mun vera í fjórða skiptið sem hátíðin fer fram. Áhugasamir geta tekið þátt í námskeiðum, notið sýninga, samverustunda og alls sem tengist brúðuleik.

Í kynningu á HIP FEST segir að um sé að ræða þriggja daga hátíð þar sem samtíma brúðulist á sviði og á skjá er gert hátt undir höfði í fallegu umhverfi á Hvammstanga. „Við styðjum listamenn á landsbyggðinni og landsbyggðina sem vettvang listsköpunar með virkum hætti og deilum bestu brúðuleiksýningum sem heimurinn hefur upp á að bjóða með áhorfendum sem taka þeim fagnandi. HIP er samvera. Það lifir í núinu og mótar framtíðina. Það er staður fyrir listræna samveru; til að deila færni, gleði, mat, list og skemmtun. HIP er hvíld frá erilsömu lífi, tækifæri til að hlusta á þögnina háværu.“

Það er því ekki úr vegi að Feykir fái einn fremsta brúðulistamann heims, Gretu Clough, til að svara nokkrum spurningum um hátíðina. Greta er í forsvari fyrir Handbendi brúðuleikhús á Hvammstanga sem stendur fyrir hátíðinni. Fyrst var Greta spurð um dagskrána.

„Dagskráin á HIP 2024 er fjölbreytt blanda af brúðuleiksýningum, vinnustofum og umræðum, sem sýnir fjölbreytileika og nýsköpun innan listformsins. Ég er svo heppin að ferðast töluvert vegna vinnu minnar og mæta á fjöldann allan af brúðuleiksýningum, þar af leiðandi get ég handvalið þær sýningar sem ég elska og komið með þær heim til Norðurlands vestra fyrir hátíðina.“ Alls verða sex gestasýningar á hátíðinni auk sýningar Handbendis brúðuleikhúss en sýnendur eru Claudine Rivest (Kanada), Coriolis hlutaleikhúsið (Úrúgvæ), Studio Damúza (Tékkland), Rootstock Puppet Co. (Bandaríkin/Ísland), Silent Tide í samstarfi við Little Angel Theatre (Bretland) og Sofie Krog leikhúsið (Danmörk). „Svo erum við með aukaverkefni, vinnustofur og eitthvað fólk mætir á hátíðina með pop up flutning eins og Bonnie Kim frá Havaí og Heather Henson's Handmade Puppet Dreams pop-up bíóbíllinn,“ segir Greta og bætir við að auk þess muni íslenskir hópar mæta til leiks; Pilkington Props með risatröll sem verður í heimsókn á Hvammstanga og Þykjó sem verða með skemmtilega hönnunar- og föndursmiðju fyrir krakka.

Amma Gretu kveikti áhugann hjá henni

Er brúðuleikjaheimurinn þröngur hópur? „Brúðuleikjaheimurinn er heillandi undirsvið innan víðara sviðs leikhússins. Þó að það gæti virst þröngt svið, þá er það furðu víðfeðmt og fjölbreytt í nútímaformi. Brúðuleikur gegnsýrir ýmsa þætti menningarlandslags okkar og birtist í ótal formum og umgjörðum, allt frá hefðbundnum leiksviðum til kvikmynda- og sjónvarpsframleiðslu. Svo, þó að það sé vissulega sérhæft svið, eru áhrif þess víðtæk og í stöðugri þróun.“

Hvað varð til þess að þú valdir þessa listgrein, var einhver sýning eða saga sem greip þig sem barn sem leiddi þig í þessa átt? „Ég ólst upp í litlum bæ, á stærð við Akureyri, þar sem mikið úrval listamanna og listgreina var í boði. Þetta er bændasamfélag, sérstaklega er mikil mjólkurframleiðsla í héraðinu, en einnig stórt listasamfélag, og þrjú mjög áberandi bandarísk brúðuleikhús hafa aðsetur þar. Ég gerði talsetningu fyrir eina þeirra þegar ég var unglingur og fékk líka að hanga á verkstæðinu og fylgjast með strengjabrúðuútskurði. En ég held að það hafi í raun verið amma mín sem kynnti mig fyrir Prúðuleikurunum þegar ég var lítil sem kveikti áhugann hjá mér. Síðan þegar ég var 15 eða 16 ára fór ég í mína fyrstu ferð til New York með leiklistartímanum í menntaskólanum mínum. Við sáum sýningu sem kallast The Green Bird sem Julie Taymor leikstýrði. Hún var full af ótrúlegum leikbrúðum og sjónrænni frásagnarlist. Ég held að það hafi verið það sem fékk mig til að vilja læra meira um svona leiklist. Þegar ég var 19 ára fór ég í leiklistarskóla í Bretlandi og hægt og rólega fetaði ég í þessa átt. Ég hef gaman af sjónrænu leikhúsi – líka textabundnu – en það er eitthvað svo gleðilegt og ljóðrænt við brúðu- og sjónleikhúsið sem kveikir í ímyndunaraflnu hjá mér.“

Hvernig er að vinna við brúðusýningar og brúðugerð á Hvammstanga? „Að vinna í brúðuleik er eins og að fá að leika sér allan daginn á hverjum degi... Bara að grínast. Það getur verið þannig í æfingaherberginu en þetta er líka erfitt ferli. Þú ert að reyna að þrengja frekar stór hugtök eða sögur niður í smáatriði og tákn sem áhorfendum þurfa að meðtaka og skilja. Þú þarft að vinna mikið með höfðinu og vinnan er líka mjög líkamleg. Brúðuleikarar eru eins og íþróttamenn á vissan hátt, á sama hátt og dansarar. Þetta er líkamlega og andlega krefjandi starf. En það er líka mjög skemmtilegt, fjörugt og bara fullt af gleði. Það er áskorun að vinna við brúðulist á Hvammstanga. En það hefur líka sína kosti. Það krefst alhliða nálgunar við leikhúsgerð þar sem aðrir leikhúsgerðarmenn eru staðsettir aðeins lengra í burtu en þegar við vorum í London og þú hefur endalausan lista af samstarfsfólki til að kasta hugmyndum á milli. Við erum með frábæran hóp af listamönnum frá Íslandi og erlendis sem við fáum hingað til okkar til að vinna að framleiðslu okkar og vinnum með listamönnum úr héraði eins og hægt er. Sem dæmi má nefna að með nýju sýningunni okkar, sem frumsýnd er á HIP Festi, Með vindinum liggur leiðin heim, erum við að gera sýningu byggða á bók eftir Auði Þórhallsdóttur sem er höfundur með aðsetur á Hvammstanga. Júlíus Aðalsteinn Róbertsson er tónskáldið, en hann er Hrútfirðingur. Auður hefur djúpstæð tengsl við svæðið og Júlíus er héðan. Það er algjör heiður og forréttindi að fá að vinna með þessa frábæru bók sem Auður skrifaði og gefa henni líf á öðrum miðli og Júlíus skilur um leið hvað við erum að reyna að gera. Við höfum líka lagt áherslu á að vinna með listamönnum úr dreifbýlinu. Það kann að virðast lítilvægt en það er eins konar uppreisn, gerð til að kynna sveitalistamanninn.

Yfir 300 umsækjendur á HIP FEST í ár

Hversu gömul er þessi listgrein og er vitað hvaðan hún er upprunnin? „Uppruni brúðuleiks á rætur sínar að rekja til fornrar siðmenningar, sem gerir það að einu elsta söguformi sem mannkynið þekkir. Þó að nákvæmur uppruni sé enn hulinn í mistri sögunnar, hefur brúðuleikur þróast. Samtímabrúðuleikur er samruni leikrænnar tjáningar og dramatúrgíu og sækir innblástur frá margvíslegum áhrifum. Hvað varðar leiðtoga brúðuleikhússins, hafa fjölmargir brautryðjendur mótað landslag brúðuleikhúss samtímans. –Við erum með nokkra af fremstu nútímalistamönnum okkar á hátíðinni í ár; Sofie Krog er ótrúlega nýstárlegur skapari og sýningin hennar Diva, sem verður á HIP, er fyrirmynd hvað varðar hönnun og virkni. Mike Shepherd, sem kemur með A Very Old Man with Enormous Wings, er án efa einn af áhrifamestu breskum leikhússmiðum sinnar kynslóðar.

Er brúðuleikhúsheimurinn spenntur fyrir hátíðinni á Hvammstanga? „Flytjendur og brúðuleikhópar eru áhugasamir um að koma á HIP Fest. Þetta er eina hátíð sinnar tegundar hér á Íslandi. Hátíðin er einstök í hinu alþjóðlega brúðulandslagi og gefur íslenskum almenningi eitthvað nýtt og öðruvísi að upplifa í sumar.“

Er erfitt að fá þátttakendur til Íslands? „Allt árið berast okkur fyrirspurnir um hátíðina frá listamönnum um allan heim. Ég held að á þessu ári hafi verið um 300 umsækjendur. En við erum sýningarstýrð hátíð, svo ég eyði tíma á hverju ári í að fara á sýningar um allan heim og sjá hvaða nýju verk er að verða til og hvaða verk ég tel henta fyrir hátíðina okkar.“

Að lokum segist Greta vonast til að sjá fullt af fólki af öllu Norðurlandi vestra á hátíðinni í sumar. „Við erum meira að segja með nokkrar ókeypis sýningar, svo fólk getur séð hvað þetta snýst um án þess að þurfa að borga ef það hefur aldrei farið á brúðuleiksýningu og er ekki viss um að þetta sé fyrir þau. Það verða risabrúður á röltinu um Hvammstanga og fullt af öðrum viðburðum sem við rukkum ekki aðgang að. Dagskráin á laugardeginum er sérlega glæsileg og íburðarmikil – þú getur séð næstum alla hátíðardagskrána þann dag!“ 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir