Les Alla Nalla og tunglið fyrir barnabörnin gegnum Skype

Bókhaldarinn Sigríður Aadnegard. Aðsend mynd.
Bókhaldarinn Sigríður Aadnegard. Aðsend mynd.

Sigríður Bjarney Aadnegard svaraði spurningum Bók-haldsins í 32. tbl. Feykis árið 2018.
Sigríður hefur búið á Blönduósi frá barnsasldri og starfað þar lengst af, fyrst sem leikskólakennari en síðar sem grunnskólakennari og aðstoðarskólastjóri. Nú er hún að hefja sitt áttunda ár sem skólastjóri við Húnavallaskóla. Hún hefur alltaf verið áhugasömum lestur og segist hafa lært að lesa með því að fylgjast vel með þegar bróðir hennar, tveimur árum eldri, lærði þá list. Frá því að Sigríður var fimm ára og las Gagn og gaman spjaldanna á milli hefur hún farið höndum um allnokkrar bækur, bæði til eigin ánægjuauka og einnig segir hún að áhugasviðið í námi hennar til kennsluréttinda hafi verið læsi og lestrarkennsla. „Áhugi á bóklestri hefur þó sveiflast,“ segir Sigríður, „það hafa verið tímabil sem ég hef lítið lesið en með aldrinum gef ég lestri og bókagrúski meiri tíma.“  Sigríður á tvö barnabörn sem búa erlendis. „Við notum Skype mikið til samskipta sem er dásamleg uppfinning fyrir ömmur, ég kalla mig stundum ömmu-Skype,“ segir Sigríður sem les stundum fyrir barnabörnin í gegnum Skype og hefur bók Vilborgar Dagbjartsdóttur, Alli Nalli og tunglið, verið afar vinsæl í þeim sögustundum.

Hvaða bækur voru í uppáhaldi hjá þér þegar þú varst barn? 
Ég átti allar Öddu bækurnar og las þær oft.  Kátu bækurnar voru líka í uppáhaldi sem og bækurnar um Siggu og skessuna í fjallinu. Fyrsta stóra bókin sem ég las gæti hafa verið Kapítóla eða Pollýanna.

Hvers konar bækur lestu helst?
Ég les helst skáldsögur bæði íslenskar og erlendar, einnig les ég fræðibækur sem tengjast starfi mínu. Plöntuhandbókin og fuglahandbókin eru alltaf við hendina. Ég hef líka gaman af að lesa ljóð en geri það sjaldnar.

Hver er uppáhaldsbókin af þeim sem þú hefur lesið gegnum tíðina?
Tvær gamlar konur eftir Velmu Wallis kemur fyrst í huga minn, yndisleg bók með góðan boðskap.  Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman er gullmoli. Karitas og Óreiða á striga eftir Kristínu Marju Baldursdóttur eru stórkostlegar, ég gat ekki lesið neitt í nokkrar vikur eftir að ég las þær.

Hver er þinn uppáhaldsrithöfundur/rithöfundar og hvers vegna?
Einar Már Guðmundson og Einar Kárason segja bara svo vel og skemmtilega frá. Arto Paasilinna er líka frábær höfundur, það er mjög hugmyndaríkur, fyndinn og ýtir alltaf við manni.

Hvaða bók/bækur eru á náttborðinu hjá þér þessa dagana?
Hvít fiðrildi sem ég fékk lánaða hjá tengdamömmu minni, Mindset, skrifuð af Carol Dweck sem er þróunarsálfræðingur, einnig er bókin Gæfuspor - gildin í lífinu aldrei langt frá mér, Gunnar Hersveinn skrifar. 

Ertu fastagestur á einhverju bókasafni?
Ég hef verið fastagestur á Héraðbókasafni Húnvetninga en eftir að við settum upp skiptibókahillu í vinnunni næ ég mér oftast í lesefni þar.

Áttu þér uppáhaldsbókabúð (hér heima eða erlendis)?
Nei ekki neina uppáhalds en get dvalið ansi lengi í bókabúðum.

Hvað áttu margar bækur í bókahillunum heima hjá þér?
Um 800 bækur, svo eigum við annað eins í kössum.

Hvað kaupirðu eða eignast að jafnaði margar nýjar bækur yfir árið?
Kannski svona þrjár.

Eru ákveðnir höfundar/bækur sem þú færð „alltaf“ í jólagjöf?
Einar Már Guðmundsson.

Hefur þú heimsótt staði sem tengjast bókum eða rithöfundum þegar þú ferðast um landið eða erlendis?
Já ég hef heimsótt og skoðað sögusvið Önnu í Grænuhlíð. Einnig skoðaði ég húsið þar sem Anna Frank og fjölskylda földu sig fyrir nasistum. Ógleymanleg heimsókn og átakanleg.

Ef þú ættir að gefa einhverjum sem þér þykir vænt um bók, hvaða bók yrði þá fyrir valinu?
Gæfuspor - gildin í lífinu eftir Gunnar Hersvein.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir