Lið Tindastóls fallið í 3. deild

Benni gerði laglegt mark úr aukaspyrnu á laugardag en allt kom fyrir ekki...  MYND: ÓAB
Benni gerði laglegt mark úr aukaspyrnu á laugardag en allt kom fyrir ekki... MYND: ÓAB

Tindastóll og Selfoss mættust á Sauðárkróksvelli í 2. deild karla nú á laugardaginn. Fyrir leikinn var lið Stólanna í vonlausri stöðu þegar enn voru fjórar umferðir eftir og í raun ljóst að kraftaverk dygði ekki til að bjarga liðinu frá falli. Gestirnir eru hinsvegar að berjast fyrir sæti í Inkasso-deildinni að ári og Stólarnir reyndust lítil fyrirstaða. Lokatölur voru 1-4 og lið Tindastóls þar með fallið í 3. deild.

Þór Llorens Þórðarson kom gestunum yfir eftir stundarfjórðung með skoti beint úr aukaspyrnu. Hrvoje Tokic bætti við öðru marki Selfyssinga á markamínútunni, þeirri fertugustuogþriðju, eftir að hafa fengið boltann inn fyrir vörn Stólanna. Staðan 0-2 í hálfleik. Hrvoje bætti öðru marki á 69. mínútu og Ingi Rafn Ingibergsson gerði fjórða mark Selfoss á 86. mínútu. Í uppbótartíma lagaði Benjamín Gunnlaugarson stöðuna fyrir Stólana með laglegu marki beint úr aukaspyrnu og lokatölur því 1-4.

Þar með varð niðurstaðan sú sem var í raun í spilunum í allt sumar – fall Tindastóls. Hópurinn var hreinlega ekki nógu sterkur fyrir 2. deildina. Fyrsti sigurleikurinn kom ekki fyrr en í 11. umferð og, merkilegt nokk, gegn liði Vestra sem trónir nú á toppi deildarinnar. Svona er boltinn nú skrítinn. Nú þarf að skrúfa fyrir lekann og tryggja að Tindastólsmenn mæti samkeppnishæfir til leiks í 3. deildinni að ári og rífi sig upp úr henni sem allra fyrst. 

Fyrst þarf þó að klára þrjá leiki í 2. deildinni og standa í lappirnar í leiðinni. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir