„Liðið alltaf að taka lengri og lengri skref í rétta átt“

Jackie gerði mark Tindastóls í leiknum í gær. Hér er hún í leik síðasta sumar. MYND: ÓAB
Jackie gerði mark Tindastóls í leiknum í gær. Hér er hún í leik síðasta sumar. MYND: ÓAB

Pepsi Max-deildar lið Tindastóls lék í Lengjubikarnum í gær en þá heimsóttur stelpurnar lið Stjörnunnar á Samsung-völlinn í Garðabæ. Bæði lið höfðu tapað í fyrstu umferð og því reiknað með spennandi leik. Stjörnustúlkur komu hins vegar ákveðnar til leiks eftir að hafa verið undir í hálfleik og unnu sanngjarnan 3-1 sigur.

Lið Tindastóls gerði góða hluti í fyrri hálfleik og Jackie Altschuld kom sínu liði yfir á 39. mínútu. Snædís María jafnaði leikinn á 50. mínútu og Sædís Rut kom heimaliðinu yfir á 67. mínútu. Það var síðan Betsy Doon Hassett sem tryggði sigurinn með marki stundarfjórðungi fyrir leikslok.

Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir Óskar Smára Haraldsson, annan þjálfara Tindastóls, að leik loknum. Til að byrja með var Óskar Smári spurður hvað honum hefði fundist um leikinn en honum fannst honum svolítið kaflaskiptur. „Við eigum góðan fyrri hálfleik, erum 1-0 yfir en slakur seinni hálfleikur verður til þess að Stjarnan sigrar leikinn. Ég á eftir að horfa aftur á leikinn en mín upplifum var hreinlega sú að Stjarnan spilaði þrusuvel, þær hittu á góðan dag og þegar slíkt gerist þá eru þær mjög erfiðar. Við Guðni vorum samt mjög ánægðir með vinnuframlag stelpnanna, þær eru að skila flottum hlaupatölum og eru að leggja sig fram í þessum leik.“

Hvað takið þið jákvætt út úr síðustu leikjum?„Það hefur glatt okkur þjálfarana að sjá liðið alltaf að taka lengri og lengri skref í rétta átt. Við setjum upp eitt markmið fyrir hverja viku og drillumþað yfir æfingavikuna fyrir leik og hafa bæði markmiðin náðst í fyrstu tveimur leikjunum í Lengjubikarnum. Þannig við teljum okkur vera á þeim stað sem við viljum vera á í dag. Einnig erum við að skora í öllum leikjunum sem við spilum og er það lika mjög ánægjulegt.“

Í leikjunum undanfarið hefur verið lítið um að mögulegir framtíðar leikmenn hafi verið til prufu. Er lítill áhugi fyrir að ganga til liðs við Tindastól eða leggur þjálfarateymið áherslu á að heimastúlkur fái tækifæri til að sanna sig?„Það er nú bara þannig í Lengjubikarnum að þú mátt ekki spila nema vera skráður í liðið, þess vegna höfum við ekki fengið leikmenn á reynslu í leikina. Það er áhugi allstaðar frá að spila fyrir Tindastól en við þjalfararnir höfum gefið það út að við erum að vanda valið vel.“

„Varðandi nýja leikmenn þá standa þau mál ágætlega,“ segir Óskar Smári. „Við erum að horfa bæði á innanlands sem utan. Við Guðni erum að skoða ákveðnar týpur af leikmönnum sem spila ákveðnar stöður, og eins og ég sagði, þá erum við að vanda valið.“

Hvenær er von á Amber markmanni til landsins?„Amber er mætt og er í sóttkví. Þannig hún verður klár í næsta leik sem er fyrsti heimaleikurinn í Lengjubikar á laugardag gegn FH. Hvet fólk til að mæta og styðja liðið til sigurs!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir