„Lífið hér er afskaplega ljúft og þægilegt,“ segir Teitur Björn Einarsson

Í hjarta Skagafjarðar líður þeim Teiti og Margréti vel og segja þau næsta verkefni að finna framtíðarhúsnæði í firðinum fagra. Hér eru þau í Geldingaholti með synina Gísla Torfa og Einari Garðari. Myndir aðsendar.
Í hjarta Skagafjarðar líður þeim Teiti og Margréti vel og segja þau næsta verkefni að finna framtíðarhúsnæði í firðinum fagra. Hér eru þau í Geldingaholti með synina Gísla Torfa og Einari Garðari. Myndir aðsendar.

Það var kunngjört sl. mánudag hverjir sæktust eftir kjöri á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi og kom þá í ljós að tveir þeirra níu sem það gerðu búa á Norðurlandi vestra. Annar þeirra er sr. Magnús Magnússon á Hvammstanga en hinn Teitur Björn Einarsson. Feykir hafði spurnir af því að Teitur og hans kona, Margrét Gísladóttir, frá Glaumbæ, væru búin að vera búsett í Skagafirði í um ár og bæði komu með störfin með sér úr höfuðborginni. Margrét sem framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda en Teitur er lögmaður hjá Íslensku lögfræðistofunni. Þau búa í Geldingaholti 3 á Langholti ásamt drengjunum sínum tveimur, Gísla Torfa 4 ára og Einari Garðari 2 ára. Feykir sendi Teiti nokkrar spurningar sem hann snaraði sér í að svara.

Nú er ár síðan þið komuð í Skagafjörð. Hvernig kom það til að þið fluttuð norður?
Við höfðum lengi rætt það að flytja í Skagafjörðinn en það reyndist áskorun að finna bæði húsnæði og rétta tímann út frá störfum okkar. Við vorum ákveðin í að við vildum vera í sveitinni og þá þurfti að sýna biðlund enda ekki á hverjum degi sem hentugt húsnæði fyrir fjögurra manna fjölskyldu, þar sem báðir foreldrar vinna skrifstofuvinnu innan heimilisins, stendur til boða. Um jólin 2019 má svo segja að hlaupið hafi á snærið hjá okkur þegar við fréttum af fullkomnu húsnæði í sveitinni sem gæti fengist leigt og þá fórum við á fullt í að koma því þannig fyrir að flutningur væri mögulegur. Við erum svo heppin að vera nokkurn veginn í störfum án staðsetningar svo þegar húsnæðismál leystust var ekkert annað í myndinni en að stökkva til.

Var aldrei vafi um hvort það væri rétt skref að flytja úr borg í sveit?
Nei, við efuðumst ekki um það eitt augnablik. Við erum bæði alin upp úti á landi og landsbyggðin togaði í okkur. Við höfðum líka rætt það að flytjast vestur á Flateyri þar sem ég sleit barnsskónum en hér er Mergrét uppalin og fjölskyldan í næsta nágrenni og við vildum gefa strákunum okkar það að vera nærri afa og ömmu og búskapnum.

Var eitthvað mál að flytja störfin með ykkur út á landsbyggðina og hvernig hefur það gengið?
Það var í raun ótrúlega lítið mál. Auðvitað spilaði Covid þar dálítið stórt hlutverk en þegar faraldurinn barst hingað til lands fórum við beint norður. Atvinnulífið og stjórnsýslan var fljót að aðlaga sig að fjarfundum og þá skipti staðsetning ekki lengur eins miklu máli og áður. Við sinnum því störfum okkar á sama hátt og áður og ef það er þörf á því að fara suður þá skjótumst við bara þangað. Ætli stærasta áskorunin hjá okkur sé ekki að samræma starfsferðir og fjölskyldulíf þannig við séum ekki bæði í burtu sama daginn.

Stjórn Landssambands kúabænda er skipuð fimm kúabændum sem búa hringinn í kringum landið, Margrét býr hér og svo er annar starfsmaður LK, auk fjölda samstarfsfólks hjá Bændasamtökum Íslands og öðrum búgreinafélögum, í Reykjavík og víðar svo það er hægt að segja að þróunin á fundarformi síðasta árið hafi verið einstaklega heppileg fyrir slíka starfsemi. Starfið felur líka í sér töluvert af ferðalögum og samskiptum við fólk um allt land svo þar skiptir staðsetning ekki höfuðmáli.

Ég sjálfur skipti um starfsvettvang skömmu fyrir flutning og starfa í dag sem lögmaður hjá Íslensku lögfræðistofunni með aðsetur hér. Verkefnin koma alls staðar að af landinu og ef svo ber undir að leggja þarf land undir fót þá er Skagafjörður nokkuð miðsvæðis sé litið til landsins alls svo það er ekki mikið mál.

Hvernig er lífið í sveitinni?
Lífið hér er afskaplega ljúft og þægilegt. Við búum svo vel að eiga góða nágranna og hér er fagurt útsýni til allra átta. Við getum ekki sagt að við söknum umferðargötunnar þar sem við bjuggum í Reykjavík, þá sérstaklega með tvo unga drengi. Auðvitað hafa samfélagstakmarkanir vegna Covid sett sitt mark á líf allra en vonandi fer þessu að létta með sumrinu og fólk getur aftur farið að hittast í meiri mæli.

Ferðalög um landið, útilegur, fjallgöngur eða annað
sem landið hefur upp á að bjóða, hefur verið helsta
áhugamál þeirra Teits og Margrétar en hér eru þau
á Látrabjargi fyrir tveimur árum.

Hver eru helstu áhugamál?
Við deilum áhuga á ferðalögum um landið hvort sem það eru útilegur, fjallgöngur eða annað sem landið hefur upp á að bjóða. Á síðustu árum höfum við verið að ganga töluvert á Vestfjörðum, sér í lagi á Hornströndum. Ég komst þar reyndar að því að Margrét er ekki hrifin af löngum bátsferðum í ólgusjó en á móti dró hún mig í smölun í Staðarfjöllum í aftakaveðri þar sem annar hver maður villtist í þoku -þar á meðal við- svo við erum kvitt.

Eftir að við eignuðumst strákana þá hefur ferðaþörfin meira færst í helgarbíltúra en við reynum þá að fara um svæði sem við höfum ekki komið á áður. Auk þess höfum við gaman af matseld og ég stunda skot- og stangveiði í þau fáu skipti sem tími er fyrir slíkt.

Hvar liggja helstu tækifærin að ykkar mati í styrk landsbyggðarinnar?
Styrkleiki landsbyggðarinnar er fólkið sem hér býr og hversu annt því er um samfélagið og reiðubúið að leggja sitt af mörkum. Ef við horfum á Skagafjörðinn þá er styrkleikinn klárlega fólginn í samheldnu samfélagi sem byggt er á traustu atvinnulífi sem er í mikilli framþróun og góðu aðgengi að grunnþjónustu. Sem dæmi þá leið ekki mánuður frá því við vorum flutt í Skagafjörðinn þar til báðir drengirnir okkar voru komnir á leikskóla en eins og líklega flestir þekkja er það ansi langt frá veruleikanum í Reykjavík. Við fundum strax mjög sterkt fyrir því hvað við vorum einlægt boðin velkomin og fyrr en varir farin að taka þátt í hvers konar samfélagslegum viðburðum, og það þrátt fyrir Covid takmarkanir. Þetta er held ég líka raunin svo víða á landsbyggðinni. Áskorunin hér virðist fyrst og fremst felast í því að tryggja nægt framboð á húsnæði fyrir allt það fólk sem vill setjast hér að, sem mætti kalla jákvæða áskorun en þarf að taka föstum tökum.

Það liggja líka mikil tækifæri í störfum án staðsetningar, sérstaklega eftir reynsluna af Covid. Það er deginum ljósara að fjölmargir vilja búa utan höfuðborgarsvæðisins en hafa ekki getað þar sem atvinnumöguleikar þess -fram til þessa- hafa kannski verið af skornum skammti á því svæði þar sem það helst myndi kjósa að búa. Fjölmörg störf falla hér undir og ættu opinberar stofnanir sérstaklega að líta í auknum mæli á störf óháð staðsetningu. Með bættu fjarskiptakerfi og aðgengi að opinberri þjónustu með verkefninu Stafrænt Ísland á þetta ekki að vera neitt mál. Þarna opnast líka tækifæri fyrir aukið fjarnám og fjarheilbrigðisþjónustu, án þess þó að skerða þjónustuna sem er til staðar nú þegar.

Nú sækist þú Teitur eftir þingsæti fyrir NV kjördæmi. Segðu mér eitthvað frá því.
Já, ég gaf það út nýverið að ég sækist eftir 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir Norðvesturkjördæmi sem fram fer 16. og 19. júní nk. Fyrir Alþingiskosningarnar árið 2016 skipaði ég 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins og var kjörinn á þing en eftir kosningarnar 2017 hef ég verið 1. varaþingmaður flokksins hér. Á þessum tíma hef ég verið svo lánsamur að vinna með fjölda fólks um allt kjördæmið að góðum málum en róðurinn hefur líka víða verið þungur. Ég vil áfram vinna að framgangi góðra mála og styrkingu byggðanna í kjördæminu og reiðubúinn að takast á við þau verkefni sem framundan eru. Kosningarnar í haust verða að snúast um það hvernig við sköpum hér meiri verðmæti og fjölgum atvinnutækifærum í því skyni að treysta lífskjör fólks í byggðum landsins. Ég tel að þetta verður að gerast á forsendum byggðanna sjálfra þannig að þær fái notið sinnar sérstöðu og nálægðar við uppsprettu margvíslegra tækifæra.

Eitthvað sem þið viljið koma á framfæri.
Við fundum það með okkur nokkuð fljótt eftir flutninga hingað í Skagafjörðinn að hér viljum við eiga heimili, óháð þeim verkefnum sem kunna að bíða okkar í framtíðinni. Hér líður okkur vel og næsta verkefni er því að finna framtíðarhúsnæði í firðinum fagra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir