Nóvember er sundmánuður
Sundlaugin á Hvammstanga hefur skráð sig til leiks í landsátakinu Syndum, sem byrjar á morgun 1. nóvember. Þetta kemur fram á vefsíðu Húnaþings vestra.
Allt sem þarf að gera er:
- Mæta
- Synda
- Skrá nafn og vegalengd á blað í afgreiðslunni í íþróttamiðstöðinni
- Starfsfólkið sér um skráningu
- Syndum er heilsu- og hvatningarátak sem höfðar til allra landsmanna. Markmiðið með Syndum er að hvetja almenning til þess að hreyfa sig oftar og meira í sínu daglega lífi og nota meðal annars sund til þess.
Það er margt sem við getum gert til að bæta og viðhalda líkama og sál og allt telur. Íslendingar hafa verið duglegir að stunda sund enda búum við vel að góðum sundlaugum um allt land.
Sund er fyrir alla, óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi og er tilvalin þjálfunaraðferð sem styrkir hjarta- og æðakerfið, lungu og vöðva líkamans en er einnig frábær og skemmtileg tómstundaiðja sem öll fjölskyldan getur stundað saman.
Að lokum er allir hvattir til að mæta í sund og taka þátt í þessu landsátaki.
 
						 
								 
			 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
