Lífshlaupið ræst í fjórða sinn 2. febrúar

Miðvikudaginn 2. febrúar verður Lífshlaupið , fræðslu-og hvatningarverkefni ÍSÍ, ræst í fjórða sinn. Um 13.300 manns tóku þátt í hlaupinu á síðasta ári og hafði þátttakendum fjölgað um 4000 á milli ára.

Þrenns konar form verður á hlaupinu þar sem hægt er að taka þátt í vinnustaðakeppni frá 2.-22. febrúar, fyrir 16 ára og eldri, hvatningarleik fyrir grunnskóla frá 2.-22.febrúar, fyrir 15 ára og yngri og einstaklingskeppni þar sem hver og einn getur skráð inn sína hreyfingu allt árið. 

Markmið Lífshlaupsins er að hvetja almenning til þess að hreyfa sig. Skrá má alla hreyfingu inn á vefinn svo framarlega sem hún nær ráðleggingum Lýðheilsustöðvar um hreyfingu. Börnum og unglingum er ráðlagt að hreyfa sig í 60 mínútur á dag hið minnsta og fullorðnir ættu að sama skapi að hreyfa sig í hálfa klukkustund hvern dag hið minnsta. Lífshlaupið höfðar til allra landsmanna og er hægt að skrá þátttöku á vefsíðu hlaupsins www.lifshlaupid.is

Fleiri fréttir