Lífsmark handan fjallsins
Hinrik Már Jónsson á Syðstu-Grund í Skagafirði hefur orð á sér fyrir að geta sagt margt í fáum orðum og nú er komin út ljóðabók þar sem hann glímir við þá íþrótt að semja ljóð í fáum orðum. „Orð eru dýr og þarf að fara sparlega með,“ segir í formála bókarinnar sem ber heitið Lífsmark handan fjallsins.
Hinrik segist hafa fengið hugmyndina að útgáfu bókarinnar í fyrrasumar en eigi samt sem áður þó nokkurn aðdraganda. Hann hefur frá unga aldri dundað sér við að setja eitthvað saman og áhuginn á tungumálinu og texta er sterkur. Hann hefur verið einkar hugfanginn af þeirri list að segja sem mest í sem fæstum orðum.
„Ég hefði aldrei gert þetta nema að búa svo vel að eiga dóttur, Rakel, sem starfar sem grafískur hönnuður í Kaupmannahöfn. Hún hefur verið að ýta á kallinn árum saman að gera eitthvað með þetta sem hefur verið til. Ég fór óvart að taka ljósmyndir og fékk þá hugmynd að það væri hægt að búa til einhverja heild úr mynd og texta. Ég eignaðist síma með góðri myndavél og byrjaði að taka myndi og allar þessar myndir eru teknar á þann síma. Seinni partinn í fyrra sumar ákvað ég þetta og fór í að gera skipulagið, valdi slatta af myndum og setti á Word skjal. Svo settist ég við tölvuna og fór að dunda mér við að setja einhver orð við þetta. Og það er svolítið sérstakt að það fór að rifjast upp einhverjar gamlar línur,“ segir Hinrik sem telur að elstu línurnar séu kannski eitthvað úr æskuljóðunum sem eru honum gleymd. „Ég hugsa að elsta ljóðið í bókinni, sem er nánast óbreytt, sé síðan ég var um tvítugt.
Ég gerði þetta þannig að ég setti einhverja hugleiðingu við hverja mynd, vann það svolítið hratt, og þegar ég var búinn af því fór ég aftur í gegnum þetta. Þá fór ég í það að skera niður, laga og bæta. Hugmyndin er að reyna að sleppa með sem fæst orð.“
Hinrik segir Rakel, dóttur sína, hafa í raun búið bókina til, sett upp og hannað. Og ein ágæt prentsmiðja á Jótlandi sem prentaði.
Enn sem komið er hefur bókin einungis verið til sölu hjá höfundi, verið auglýst á Facebook og öðrum samfélagsmiðlum en fólk getur einnig haft samband við Hinrik í einkaskilaboðum á Facebook eða á netfangið hinrikmar@torg.is. Einnig mega áhugasamir hringja í höfund ef áhugi er á bókinni í síma 8636036.