Lífsstílsáskorun Þreksports

Guðrún Helga Tryggvadóttir og Guðjón Örn Jóhannsson, umsjónarmenn áskorunarinnar. Mynd:FE
Guðrún Helga Tryggvadóttir og Guðjón Örn Jóhannsson, umsjónarmenn áskorunarinnar. Mynd:FE

Líkamsræktarstöðin Þreksport á Sauðárkróki er nú að hleypa af stokkunum lífsstílsáskorun til tólf vikna þar sem fólki gefst kostur á að stíga fyrstu skrefin í átt að bættum lífsstíl. Þeir sem taka þátt í áskoruninni fá utanumhald og hvatningu hjá þjálfurum Þreksports, ráðgjöf við markmiðasetningu og næringarráðgjöf ásamt mælingum. Áskoruninni lýkur svo með verðlaunaafhendingu á árshátíð Þreksports í lok mars. Á morgun, föstudaginn 4. janúar klukkan 18:00 verður haldinn kynningarfundur og skráning hefst strax að honum loknum. 

Feykir leitaði nánari upplýsinga um áskorunina hjá Guðrúnu Helgu Tryggvadóttur og Guðjóni Erni Jóhannssyni, umsjónarmönnum átaksins. 

„Hjá þjálfurum Þreksports er áherslan að hvetja fólk til að stunda heilbrigða hreyfingu og við leggjum ofuráherslu á að allar hreyfingar séu eins góðar fyrir líkamann og mögulegt er. Við reynum að hafa tímana okkar þannig upp byggða að þeir sem mæta reglulega fái alhliða og fjölbreytta þjálfun fyrir allan líkamann. Með því að setja upp áskorun Þreksports viljum við skapa fólki hvatningu til þess að byrja að hreyfa sig eða halda áfram að hreyfa sig og gera betur undir handleiðslu þjálfara stöðvarinnar. Tilgangurinn á ekki að vera öfgafull keppni þar sem heilsu fólks er ógnað.“ 

En fyrir hverja er áskorunin hugsuð?

„Tímarnir okkar eru þannig uppsettir að allir eiga erindi þar inn svo lengi sem heilsa til líkamsræktar sé til staðar. Fólk getur gert allar æfingar á sínum eigin hraða og með þá þyngd sem hentar hverjum og einum. Þannig getur mjög fjölbreyttur hópur fólks komið í tímana og fengið sitt allra mesta og besta út úr hverjum tíma. Þegar fólk mætir í fyrsta skipti þá á það einungis að upplifa hvatningu og skemmtun í tímanum og vellíðan eftir á sem fær fólk til að endurtaka leikinn. Harðsperrur og þreyta eftir æfingu er óumflýjanlegt en það eru góðir verkir og eru einungis staðfesting á því að góðir hlutir eru farnir að gerast.“ 

Sterkari í hóp en einn á báti 

„Við erum sterkari í hóp heldur en ein á báti og félagslegi þáttur Þreksports hefur hjálpað einstaklingum að upplifa hreyfingu á jákvæðan og skemmtilegan hátt. Það er því tilvalið fyrir vini eða vinkonur, vinahópa eða saumaklúbba að sameinast og fara með hvort öðru í gegnum áskorunina. Allir sem taka þátt og mæta reglulega koma til með að vinna, því rannsóknir sýna að sjálftraust og vellíðan eykst við reglulega hreyfingu. Við verðum á þessum 12 vikum með 2-4 viðburði þar sem hópurinn fær tækifæri til að hittast utan æfinga í spjalli og léttum anda.“ 

Og hvað felst svo í áskoruninni?

„Við lítum svo á að áskorunin sé frábær leið til að koma sér af stað í átt að breyttum lífsstíl, 12 vikur þar sem þið fáið eftirlit í æfingum og getið spurt þjálfara að því sem ykkur vantar svör við. Næringarráðgjöf með matseðlum sem miðast við hámarks hitaeininganeyslu á sólarhring. Ráðgjöf við markmiðasetningu þar sem farið verðu ítarlega í það hvernig hver og einn getur sett sér markmið sem hægt er að ná. Að lokum veita mælingar svo aðhald sem erfitt verður að skorast undan en innifalið í Áskoruninni eru fjórar mælingar, upphafsmæling, tvær stöðumælingar í fimmtu og níundu viku og svo lokamæling. Í upphafs- og lokamælingu er svo myndartaka einnig. Ástæðan fyrir svo mörgum mælingum er hugsuð fyrir fólk til að geta fylgst með á meðan á áskoruninni stendur og endurmetið sínar aðferðir reglulega. Síðast en ekki síst þá verða verðlaun veitt fyrir þrjú efstu sætin í keppninni og mætingarverðlaun verða einnig veitt. 

Allir keppendur koma til með að hafa aðgang að lokaðri síðu á facebook þar sem við þjálfarar reynum að hjálpa og styðja við alla. Reglulega bætum við svo inn þar fróðleiksmolum, pistlum og hjálparefni. Þeir sem hafa ekki Facebook verða að sjálfsögðu uppfærðir með öðrum leiðum. Að lokum verða veitt stórglæsileg verðlaun fyrir þrjú efstu sætin,“ segja þau Guðrún og Guðjón. 

Dómarar verða: Guðrún Helga Tryggvadóttir, Anna Hlín Jónsdóttir og Guðjón Örn Jóhannsson.

Nánari upplýsingar á Facebooksíðu Þreksports.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir