Lionsmenn gáfu milljón
Á fyrsta fundi haustsins í Lionsklúbbnum Höfða í Austur-Skagafirði voru afhentir tveir styrkir samtals að upphæð ein milljón króna. Þeir sem nutu gjafmildi Höfðamanna voru Sundlaugin á Hofsósi sem fékk 700 þúsund krónur og Leikfélag Hofsós 300 þúsund.
Það var Kristján Jónsson fráfarandi formaður klúbbsins sem afhenti styrkina en Fríða Eyjólfsdóttir og Sævar Pétursson íþróttafulltrúi veittu þeim viðtöku. Sævar sagði að upphæðinni yrði varið til kaupa á ýmsum búnaði fyrir sundlaugina. Fríða gerði grein fyrir starfsemi leikfélags Hofsóss og sagði að styrkurinn gerði félaginu kleift að kaupa ýmsan búnað sem hingað til hefði verið fenginn að láni hér og þar þegar sýningar hafa verið á vegum félagsins. ÖÞ
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.