Listakonan Gyða Jónsdóttir frá Sauðárkróki
Út er komin falleg bók til að heiðra minningu Gyðu Jónsdóttur. Gyða fæddist á Sauðárkróki 4. ágúst árið 1924. Foreldrar hennar voru Geirlaug Jóhannesdóttir og Jón Þorbjargarson Björnsson skólastjóri á Sauðárkróki en hann var frá Veðramótum á Skörðum, af hinni kunnu Veðramótaætt. Það er Stefán S. Guðjónsson tengdasonur Gyðu sem stendur að útgáfu bókarinnar.
Í formála bókarinnar segir Stefán:
„Í ágúst árið 2024 voru hundrað ár liðin frá fæðingu tengdamóður minnar, Gyðu Jónsdóttur, en hún fæddist á Sauðárkróki þann 4. ágúst árið 1924. Gyða var listfeng enda af listfengu fólki komin. Sjálf fór hún utan í listnám og nam listvefnað þó að hún hafi jafnframt verið mjög drátthög eins og sjá má af nokkrum myndum sem prýða þessa útgáfu.
Gyða var hógvær og var ekki mikið að flíka því sem hún hafði unnið. Það tók mig t.d. langan tíma að átta mig á hversu merkileg þessi vinna Gyðu var í raun og veru. Má í raun segja að ég hafi ekki gert mér almennilega grein fyrir öllu því fyrr en nýlega þegar ég sá ofan í gamla ferðatösku sem var í geymslu hjá dóttur Gyðu.
Gyða nam sína list í Osló en einnig í Helsinki og e.t.v. hafði dvölin þar mest áhrif á hana. Þar var hún innan um ýmsa sem seinna áttu eftir að marka spor í listaheiminum. Til að mynda stundaði hinn kunni arkitekt Alvar Alto nám við sama skóla og Gyða.
Gyða talaði almennt vel um dvöl sína í Finnlandi og henni líkaði vel við Finnana. „Það er ekki að spyrja að Finnunum,“ var viðkvæðið hjá Gyðu þegar hún sá fallega finnska hönnun eða listaverk. Þetta varð að orðtaki sem síðan hefur verið notað við ýmis tækifæri af niðjum Gyðu.
Skömmu fyrir andlát Gyðu, í janúar 2011, sat ég hjá henni góða stund að kvöldi dags og þá sagði hún mér meira af vefnaði sínum og vinnunni á bak við verkin. Á þeirri stundu áttaði ég mig á hversu merkileg þessi vinna hennar var. Ég varð forvitinn og vildi fá að vita meira. Þessa kvöldstund sagði hún mér frá vinnu sinni á vefstofu Ernu Ryel, en Erna var gift Stefáni, bróður Gyðu, og frá kennslunni við Hússtjórnarskóla Blönduóss. Þar starfaði hún undir styrkri stjórn frænku sinnar, Halldóru Bjarnadóttur skólastjóra. Gyða sagði mér að hún hefði litað sitt eigið band úr íslenskum náttúrujurtum og að hún hefði setið löngum stundum á Þjóðminjasafni Íslands og teiknað myndir og mynstur upp eftir verkum á safninu og síðan hefði hún ofið myndirnar á vefstofunni. Hér í þessari bók má sjá nokkur þessara verka. Sum þeirra verða að teljast mikil listaverk.
Hér er líka að finna nokkrar myndir af húsdýrum og annað myndefni úr íslenskri sveit. Líklegt má telja að þessi verk hafi verið gerð eftir myndum Jóhannesar Geirs, listmálara og bróður Gyðu. Jóhannes mun hafa unnið verkin í tengslum við landbúnaðarsýningu sem haldin var á Selfossi.
Í gömlu ferðatöskunni sem minnst var á hér að framan var að finna fjöldann allan af blýantsteikningum eftir Gyðu en þessar myndir er einnig að finna í bókinni. Líklegt er talið að þær hafi verið gerðar á meðan Gyða var í námi erlendis, sennilegast í Helsinki. Einnig var þar að finna skissur og litakort en einnig skissubók hennar sem hún hefur mögulega haft við höndina dag hvern.
Yngsta verkið í bókinni er teikning sem Gyða gerði árið 1989. Myndin er af barnabarni hennar, Ottó, en hana teiknaði hún eftir ljósmynd sonar síns. Þá var hún annars löngu búin að leggja frá sér blýantinn. Verk Gyðu eru flest að finna inni á heimilum afkomenda hennar en önnur eru hjá frændfólki.
Nú á þessum tímamótum þótti mér við hæfi að minnast hennar, þeirrar vönduðu og góðu konu sem við þekktum og á svo stóran hlut í hjörtum okkar sem kynntumst henni í lifandi lífi. Það var m.a. þess vegna sem ég ákvað að ráðast í að láta ljósmynda þau verk hennar sem við náðum til. En líka til þess að gefa öllum afkomendum Gyðu Jónsdóttur og Ottós A. Michelsen tækifæri til þess að kynnast verkum hennar og njóta þeirra um ókomna tíð.
Við vinnslu þessarar bókar naut ég aðstoðar ýmissa sem lögðu margt gott til. Af öðrum ólöstuðum ber að nefna Snorra son minn, Stefán Örn Stefánsson sem kom mér á sporið og Spessa ljósmyndara sem skilar hér glæsilegu verki. Auk þess Aðalstein Ingólfsson sem gaf mér góðar ábendingar. Að síðustu ber að nefna Björgu Vilhjálmsdóttur sem sá um umbrot og útlit. Eru þeim færðar miklar þakkir fyrir."
Þeir sem áhuga hafa fyrir bókinni geta sett sig í samband við Stefán á : stefan@lindsay.is eða í síma: 8961890, og fengið eintak af bókinni.
Stefán S. Guðjónsson, útgefandi
Meðfylgjandi: mynd af kápu og sýnishorn af verkum Gyðu. /hmj