Ljósadagurinn er í dag

Þann 12. janúar hefur verið haldinn ljósadagur ár hvert í Skagafirði frá árinu 2015 til að minnast látinna ástvina með því að tendra útikertaljós við heimili sín. Þetta er í áttunda skiptið sem þessi dagur er haldinn en nú viðrar þannig til að erfitt getur reynst að halda loga lifandi á útikerti svo fólk er hvatt til að setja logandi kerti út í glugga.

Það hefur verið tilkomumikil sjón að líta yfir þann fjölda logandi kerta við heimili, gangstéttir, götur og heimreiðar þegar skyggja tekur en nú reynir á hvort það gæti einnig átt við kertaljós í glugga.

Ljósadagurinn var fyrst haldinn ári eftir að þau Anna Jóna Sigurbjörnsdóttir og Skarphéðinn Andri Kristjánsson lentu í umferðarslysi þann 12. janúar 2014, sem varð þeim báðum að aldurtila. Hafa íbúar héraðsins ætíð tekið virkan þátt og hefur þessi athöfn einnig náð langt út fyrir sýslumörk. Kveikjum á kerti og minnumst látinna vina og ættingja.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir