Lögreglan á Norðurlandi vestra eykur þjónustu og samstarf við almenning
Um áramót tóku í gildi einar umfangsmestu breytingar í sögu lögreglunnar þegar fullur aðskilnaður varð á milli sýslumanna og lögreglunnar. Lögregluliðin á Blönduósi og Sauðárkróki voru sameinuð í eitt lið, Lögregluna á Norðurlandi vestra, og hefur það nú tekið til starfa. Hið nýja embætti hefur m.a. stofnað samskiptasíðu á Facebook sem miðar fyrst og fremst að því að kynna starf lögreglunnar og auka upplýsingaflæði til almennings.
Fyrsti lögreglustjóri hjá hinu nýstofnaða embætti, Páll Björnsson frá Löngumýri, hefur hafið störf en hann mun hafa aðsetur á lögreglustöðinni á Sauðárkróki, sem er aðalskrifstofa embættisins. Tveir yfirlögregluþjónar eru hjá embættinu, Stefán Vagn Stefánsson, sem er yfirmaður rannsókna og Kristján Þorbjörnsson, sem er yfirmaður almennrar deildar. Saksóknarfulltrúi embættisins og staðgengill lögreglustjóra er Björn Ingi Óskarsson. Þá hefur lögreglukonan Erna Rut Kristjánsdóttir hafið störf sem skrifstofustjóri og er almennur skrifstofutími frá kl: 9-15 alla virka daga á lögreglustöðinni á Sauðárkróki.
Lögreglustöðvarnar verða áfram tvær, sem fyrr staðsettar á Hnjúkabyggð 33 á Blönduósi og Suðurgötu 1 á Sauðárkróki. Þá verður tekið í gagnið nýtt skýrslugerðarherbergi á lögreglustöðinni á Sauðárkróki og standa nú framkvæmdir yfir vegna þessa.
„Við sjáum fram á marga og spennandi möguleika við stækkun lögregluliðsins sem geta styrkt innviði lögreglunnar á svæðinu. Það er okkar markmið, að auka þjónustuna og samstarfið við almenning og að halda áfram að efla öryggisstigið á Norðurlandi vestra,“ sagði Björn Ingi saksóknarfulltrúi og staðgengill lögreglustjóra í samtali við Feyki.