Lokatölur í laxveiðinni

Miðfjarðará var í þriðja sæti á lista Landssambands veiðifélaga yfir aflahæstu árnar. Mynd:angling.is
Miðfjarðará var í þriðja sæti á lista Landssambands veiðifélaga yfir aflahæstu árnar. Mynd:angling.is

Veiði er nú lokið í flestum laxveiðiám landsins og hefur lokatölum verið skilað fyrir allar húnvetnsku árnar. Þær eiga það flestar sammerkt að afli þar er umtalsvert minni en síðustu ár og oft þarf að leita langt aftur í tímann til að finna svo léleg sumur.

Miðfjarðará er efst á listanum yfir norðlensku árnar. Hún er í þriðja sæti með 1606 laxa. Þar veiddust 2.719 laxar í fyrra og 3.765 árið 2017.

Laxá á Ásum er með lokatölur upp á 807 laxa og er í sjötta sætinu og nær trúlega að halda því. Þar veiddust fleiri laxar en á síðasta ári þegar hún skilaði 702 fiskum en lokatölur þar árið á undan voru 1.108.

Í Blöndu veiddust ekki nema 638 laxar og þarf að fara allt aftur til ársins 2003 til að finna jafn lélegt sumar. Þar veiddust 870 laxar í fyrra og 1.433 í hitteðfyrra. Blanda er í 14. sæti á listanum.

Í Vatnsdalsá veiddust 477 laxar í ár samanborið við 551 í fyrra og 714 árið 2017.

Víðidalsá var með lokatölur upp á 430. Í fyrra veiddust þar 588 laxar og 781 árið áður.

Hrútafjarðará og Síká skera sig úr líkt og Laxá á Ásum og skiluðu meiri afla en í fyrra. Veiðin þar var 401 lax en þeir voru 360 á síðasta ári og 684 árið 2017.

Loks kemur svo Svartá sem er mjög neðarlega á lista. Þar var veiðin aðeins 57 laxar samanborið við 129 í fyrra og 128 árið 2017.

Á vef Landssambands veiðifélaga, angling.is, má finna lokatölur mörg ár aftur í tímann svo áhugasamir geta kynnt sér þær þar.   

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir