„Maður og náttúra, nýtilkominn sambúðarvandi“ - Áskorendapenninn Hörður Ríkharðsson Blönduósi

Hörður Ríkharðsson kennari í Blönduskóla og fyrrum Alþingismaður. Aðsend mynd.
Hörður Ríkharðsson kennari í Blönduskóla og fyrrum Alþingismaður. Aðsend mynd.

Ef það er um það bil þannig að maðurinn í núverandi mynd sinni hafi komið fram fyrir fáum milljónum ára, ekki tekið sér fasta búsetu og hafið ræktun lands fyrr en fyrir 10.000 árum og ekki innleitt tækni né  hafið eiginlega auðlindanýtingu og orkubrennslu í stórum stíl fyrr en undir 1800 þá verður að segjast að allt hefur verið að gerast á síðustu 200 árum eða svo.

Áætlað hefur verið að fjöldi manna gæti hafa verið um 5 milljónir fyrir 10000 árum og líklega á bilinu 3 til 600 milljónir við Kristsburð fyrir um 2000 árum. Líklegt er talið að fjöldi manna hafi verið um 1 milljarður um 1800 og mannskepnan ekki svo mjög farin að hafa áhrif á umhverfi sitt. Núna réttum 219 árum síðar erum við 7,7 milljarðar og stærsta viðfangsefni samtímans er að ná tökum á þeim áhrifum sem við höfum á umhverfi okkar. Tvöhundruð ár er ofboðslega skammur tími í sögu mannsins að ekki sé talað um í sex milljarða ára sögu alheimsins.  Mér finnst að fólk ætti að gefa sér tíma til að hugleiða þennan stutta tíma og þennan mikla fjölda. Ótrúlegt er að heyra stundum sagt að hitt eða þetta hafi nú löngum verið svona eða hinsegin þegar staðreynd er að fyrir augnabliki þá voru mjög fáir menn á jörðinni og eiginlega ekkert um að vera.

Tvöhundruð ár af stanslaust vaxandi auðlindanýtingu og kolefnalosun virðist vera á örskömmum tíma að gjörbreyta lífsskilyrðum okkar. Ég tel það stærstu skyldu allra manna að staldra við og hugleiða þessi mál og lesa sér til í hverri viku. Vonandi er þessi vandi ekki svona mikill og vonandi eru lausnir handan við hornið, en á meðan ekki er sýnt fram á hvoru tveggja verður að virkja alla. Skylda upplýstra, menntaðra og ríkra þjóða er meiri en annarra.

Allt annað mál – um páskana fór ég til New York og sá að enn er verið að byggja 65 hæða hús á Manhattan eyju. Við ókum í tvo og hálfan tíma upp í sveit í Connecticut, þar var engin að byggja og sumir á förum. Alltaf jafn erfitt að skilja þetta, hvar sem maður er í heiminum. Furðuleg skepna, mannskepnan.

Ég skora á Sigríði B. Aadnegard skólastjóra á Húnavöllum að skrifa grein.

Áður birst í 30. tbl. Feykis 2019.
@EÍG

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir