Magnað lið Kormáks/Hvatar í undanúrslit 4. deildar

Gaman í klefanum eftir einn sigurleikinn fyrr í sumar. Mynd af FB síðu Bjarka Más Árnasonar,. Með honum á myndinni eru Viktor Ingi Jónsson og Ágúst Friðjónsson.
Gaman í klefanum eftir einn sigurleikinn fyrr í sumar. Mynd af FB síðu Bjarka Más Árnasonar,. Með honum á myndinni eru Viktor Ingi Jónsson og Ágúst Friðjónsson.

Kormákur/Hvöt gerði sér lítið fyrir og lagði Hamar frá Hveragerði í hörkuleik á Blönduósvelli í gær með tveimur mörkum gegn einu og komst þar með áfram í undanúrslit 4. deildar á fleiri mörkum skoruðum á útivelli. Fyrri leikur liðanna fór 3 – 2. Bæði lið misnotuðu víti í leiknum.

Það var heimamaðurinn Diego Moreno Minguez sem skoraði fyrsta mark leiksins rétt áður en dómarinn flautaði til hálfleiks eða á 42. mínútu. Heimamenn í kjörstöðu í hálfleik.

Þegar hálftími var liðinn af seinni hálfleik jafnaði Bjarki Rúnar Jónínuson leikinn og Hamarsmenn með pálmann í höndunum en Minguez var ekki á skotskónum upp á punt. Hann kom heimamönnum yfir á ný þremur mínútum síðar með bylmingsskoti langt utan af velli og kom heimamönnum í 2 – 1 og þannig enduðu leikar.

„Ég var alveg hrikalega ánægður með liðið mitt í gær, það fór ekkert á milli mála að það var mikið í húfi en við vorum staðráðnir í því að ná lengra og að þetta yrði ekki síðasti leikur okkar í sumar. Mínir menn lögðu sig svo heldur betur fram í leiknum, við höfum klárlega spilað betri leiki í sumar en náðum því sem við stefndum á, þannig ég er alveg ótrúlega sáttur,“ sagði Bjarki Már Árnason, þjálfari, er Feykir náði á honum í morgun.

Hann telur liðið eiga fína möguleika á að vinna næsta einvígi en það verði klárlega mjög erfitt. „En ef við spilum eins og við getum þá hef ég fulla trú á að við klárum það með sigri.“

Bjarki Már segir að það sem hafi einkennt lið Kormáks/Hvatar í sumar sé mikil leikgleði og samheldni innan hópsins. „Menn standa saman í þessu frá a-ö og menn eru búnir að leggja mikið á sig til að ná þessum árangri. Við erum svo sannarlega lið!“

Húnvetningar eru því komnir í undanúrslit 4. deildar og leika gegn Ægi frá Þorlákshöfn nk. laugardag 7. september á Blönduósi klukkan 12 og miðvikudaginn 11. september í Þorlákshöfn. Hefst sá leikur klukkan 17:00.

 Hér fyrir neðan má sjá seinni hálfleik K/H og Hamars en HÉR þann fyrri.

 

Posted by Aðdáendasíða Kormáks on Þriðjudagur, 3. september 2019

 

Posted by Aðdáendasíða Kormáks on Þriðjudagur, 3. september 2019

Fleiri fréttir