Margt á döfinni hjá Vinnumálastofnun
Hjá Vinnumálastofnun Norðurlandi vestra er boðið upp á fjölbreytt úrræði fyrir atvinnuleitendur í þeim tilgangi að styðja við þá sem eru nú án atvinnu. Það er afar mikilvægt að fólk sem missir vinnuna gæti þess að vera áfram virkir þátttakendur í samfélaginu og reyni að gera gott úr stöðunni með því að kanna ný tækifæri og jafnvel að auka við menntun sína. Vinnumálastofnun hefur því í samstarfi við ýmsa aðila sett af stað uppbyggjandi og áhugverð verkefni sem atvinnuleitendur eru hvattir til að nýta sér. Þó flest úrræðin séu ætluð fólki án atvinnu er vakin athygli á því að sum námskeiðin standa öllum til boða. Hér á eftir fer stutt kynning á því sem er hægt að velja um á næstunni.
Skrifstofuskólinn var settur á Sauðárkróki sl. mánudag, 23. mars. Skrifstofuskólinn er hagnýt námsbraut sem býr þátttakendur undir ýmis skrifstofustörf. Námsbrautin er samstarfsverkefni Vinnumálastofnunar og Farskólans – símenntunarmiðstöðvar og er hún í boði fyrir fólk sem er án atvinnu. Námsbrautin byggir á námskrá frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og gefur 18 einingar á framhaldsskólastigi að loknum 240 kennslustundum. Námið í Skrifstofuskólanum er fjölbreytt og uppbyggjandi og eru þar kenndar námsgreinar eins og tölvu- og upplýsingatækni, verslunarreikningur, bókhald og enska auk námstækni og sjálfstyrkingar.
Úr skuldum í jafnvægi er stutt fjármálanámskeið sem Vinnumálastofnun býður upp á á Hvammstanga 31. mars – 1. apríl. Námskeiðið er öllum opið en þátttakendur þurfa að skrá sig á það í síma 455 4200. Námskeiðshaldari er Garðar Björgvinsson. Sama námskeið verður svo í boði á Sauðárkróki 22. – 23. apríl. Þetta námskeið á erindi til allra þeirra sem eru að endurskoða fjármálin og leita leiða til að koma þeim í viðunandi horf.
Grunnmenntaskólinn er í gangi á vegum Farskólans - símenntunarmiðstöðvar á Hvammstanga. Námskeiðið hófst í febrúar en mögulegt er að bæta við þátttakendum. Grunnmenntaskólinn byggir á námskrá frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og gefur einingar á framhaldsskólastigi. Hér er á ferðinni mjög gott nám fyrir þá sem vilja rifja upp og styrkja sína grunnmenntun.
Eflum byggð er námskeið á vegum Farskólans – símenntunarmiðstöðvar sem er í boði bæði á Blönduósi og Skagaströnd. Þetta fjögurra anna námskeið fór af stað í haust og hefur gengið mjög vel.
Stefnt að starfsframa er námskeið sem er haldið af ráðgjöfum Vinnumálastofnunar. Þetta er 20 tíma námskeið sem er sérsniðið að fólki sem hefur misst vinnuna og þarf að endurmeta stöðu sína á vinnumarkaði. Nú í vetur er búið að halda tvö slík námskeið og eitt er að fara af stað. Áhugasamir um Stefnt að starfsframa geta skráð sig í síma 455 4200 og verður bætt við námskeiði þar sem áhugi er fyrir hendi. Ágæt reynsla er komin á þetta námskeið og hafa þátttakendur almennt haft gaman af námskeiðinu og talið að það hjálpaði þeim að marka sér stefnu til framtíðar eða alla vega að finna næstu skref.
Auk þessara úrræða býður Vinnumálastofnun upp á Vinnumarkaðsúrræði sem gera atvinnurekendum mögulegt að ráða til sín starfsfólk úr hópi atvinnuleitenda gegn tæplega 150.000 kr. framlagi frá Vinnumálastofnun. Frekari upplýsingar um hvernig er hægt að ráða starfsólk með þessum hætti er að finna á www.vinnumalastofnun.is og í síma 455 4200. Þessi starfstengdu vinnumakaðsúrræði gefa atvinnuleitendum jafnframt tækifæri til að vera virkir á vinnumarkaði og sinna þar áhugaverðum störfum.
Vinnumálastofnun býður svo að sjálfsögðu upp á viðtöl við náms- og starfsráðgjafa og er hægt að panta viðtal í síma 455 4200 eða á netfanginu nordurland.vestra@vmst.is. Þessi viðtöl geta hjálpað þeim sem hafa misst vinnuna að skýra stöðu sína og taka ákvarðanir um næstu skref.
Staldraðu við er heiti kynningarblaðs um Norðurland vestra sem var gefið út af Vinnumarkaðsráði Vinnumálastofnunar á Norðurlandi vestra. Var blaðinu dreift með Morgunblaðinu um síðustu helgi og er tilgangur útgáfunnar að verkja athygli á okkar ágæta samfélagi og hvetja ungt fólk til að skoða það sem valkost við val á búsetu.
Vinnumálstofnun vill að lokum vekja athygli á því að Sveitarfélagið Skagafjörður og Húnaþing vestra bjóða atvinnulausum nú frítt í sund. Í Húnþingi vestra eru sundkort afhent hjá Vinnumálastofnun á Hvammstanga. Fljótlega getum við svo kynnt hvernig er hægt að nálgast sundkort í Skagafirði.
Skráning á námskeið og frekari upplýsingar er að fá hjá Vinnumálastofnun í síma 455 4200 eða á nordurland.vestra@vmst.is
Líney Árnadóttir, forstöðukona
Vinnumálastofnun Norðurlandi vestra