Markaregn á Blönduósvelli

Drengirnir úr K/H í nýja æfingasettinu sem þeir fengu fyrir leikinn. MYND: LAM
Drengirnir úr K/H í nýja æfingasettinu sem þeir fengu fyrir leikinn. MYND: LAM

Laugardaginn 6. júlí mættust Kormákur/Hvöt (K/H) og KB í 4. deild karla á Blönduósvelli. Leikurinn var einstefna hjá K/H í fyrri hálfleik en seinni hálfleikurinn var jafnari. Mörkin komu á silfurfati í fyrri hálfleik enda var frábært knattspyrnuveður á Blönduósi á laugardaginn.

Fyrstu mínúturnar lágu K/H í sókn og þurftu áhorfendur ekki að bíða lengi eftir fyrsta markinu hjá K/H en það kom á 12. mínútu þegar Diego Moreno Minguez náði að fylgja eftir skoti frá Ingva sem  Agon Veselaj markvörður KB varði út í teig og þar var Diego Moreno Minguez  mættur og skoraði fyrsta mark leiksins. Átta mínútum síðar kom annað mark K/H þar var á ferðinni Bjarki Már Árnason sem skoraði eftir hornspyrnu frá Sigurði Bjarna, boltinn lenti fyrir framan Bjarka sem náði virkilega góðu skoti í bláhornið. Á 23. mínútu fengu tveir leikmenn að líta rauða spjaldið þeir Sudip Bohora og Sigurður Bjarni. Þremur mínútum eftir rauðu spjöldin kom þriðja mark K/H þegar Diego Moreno Minguez komst á milli sendingu varnarmanns til markmanns og náði Diego að leggja boltann framhjá Agon Veselaj og staðan 3-0 eftir 26. mínútur. K/H voru ekki hættir tveimur mínútum eftir þriðja markið fengu K/H hornspyrnu og skoraði Bjarki Már aftur en með skalla í þetta skipti. Á 33. mínútu náði Diego Moreno Minguez þrennunni eftir frábæra sendingu frá Ingva og staðan 5-0 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var jafnari en K/H áttu samt fleiri færi. Þegar það voru örfáar mínútur eftir af leiknum skoraði Hilmar Þór Kárason en markið var dæmt af vegna rangstæðu. Fleiri urðu mörkin ekki í þessum leik og lokatölur 5-0 fyrir K/H.

Þessi sigur var virkilega mikilvægur upp á að halda sér í toppbaráttunni í deildinni. K/H er í þriðja sæti með sautján stig þremur stigum frá Snæfell. Næsti leikur hjá K/H er á móti KM og verður leikurinn spilaður á KR-velli laugardaginn 13. júlí klukkan 16:00.

/EÍG      

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir