Matarheimsendingar í sveitina

Ásgeir Einarsson, verslunarmaður í Hlíðarkaup. Mynd: PF.
Ásgeir Einarsson, verslunarmaður í Hlíðarkaup. Mynd: PF.

Íslandspóstur hefur boðað nýja þjónustu, ætlaðar íbúum dreifbýlisins, þar sem matvörur og aðrar dagvörur verða keyrðar heim í sveitir landsins. Með þessu er fyrirtækið að svara mikilli eftirspurn sem verið hefur eftir heimsendingu frá viðskiptavinum sem búa í sveitum en eftirspurn hefur vaxið mikið að undanförnu, eftir því sem kemur fram á heimasíðu fyrirtækisins.

Pósturinn og Hlíðarkaup á Sauðárkróki hafa tekið höndum saman með þessa þjónustu sem hefjast mun nk. þriðjudag en Pósturinn hefur hug á að sinna samskonar dreifingu víðar á landinu til að þjónusta sveitir sem allra best. Að sögn Ásgeirs Einarssonar, verslunarstjóra Hlíðarkaupa, verða heimsendingarnar í boði tvisvar í viku, þriðjudaga og miðvikudaga og þurfa pantanir að hafa borist deginum áður fyrir kl. 13:00.

Hvernig kom það til að þessi lausn var skoðuð?
„Stjórnarformaður Póstsins, Bjarni Jónsson, hafði samband við mig og spurði hvort ég væri til í svona samstarf og ég þáði það. Mér fannst þetta sniðug hugmynd. Bændur eru með viðkvæman rekstur og vilja vera heima við,“ segir Ásgeir sem skynjar góð viðbrögð bænda við þessari bættu þjónustu.

Gjaldið mun verða 2490 krónur fyrir sendingu allt upp í 20 kíló.  Staðan verður svo tekin eftir vikuna með hliðsjón af því hvernig málin þróast. Ásgeir segir heimsendingar innan Króksins hafa stóraukist, jafnvel þrefaldast eftir að samkomubannið var sett á  en hann keyrir vörur til fólks tvisvar á dag alla daga vikunnar og tekur ekkert fyrir nema ánægjuna. 

Þrátt fyrir að Hlíðarkaup sé „lítil“ verslun og „þröng“, í jákvæðri merkingu, segir Ásgeir vel hafa gengið að fara að tilmælum sóttvarnalæknis. „Ég setti einstefnu inni í búðinni, örvar á gólfið og svo eru fjarlægðarmörk við afgreiðslukassana. Viðskiptavinir hafa aðgang að  hönskum og spritti eins og hver vill og svo er verið að útbúa glerskilrúm á kassana, milli viðskiptavinar og starfsmanns, svo ekki verði eins mikil nánd. Mér sýnist umferðin um búðina ganga vel þó þröng sé, enda okkar allra hagur að fara eftir tilmælum sóttvarnarlæknis.

Aðspurður hvort einhvers skorts á vörum hafi gætt síðustu vikurnar, segir Ásgeir svo ekki ekki vera. „Ég hef ekki lent í því. Það er ein og ein vara sem hefur vantað einhverja daga. Ég hef rætt við mína helstu heildsala og þeir telja að það verði ekki vöruskortur nema aðstæður breytist verulega."

Ekki náðist í Elvar Bjarka Helgason, forstöðumann söludeildar Póstsins við vinnslu fréttarinnar, um hvort Húnvetningar ættu einnig von á álíka þjónustu á næstunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir