Meira en 40 viðburðir í boði á Eldi í Húnaþingi

Hátíðin Eldur í Húnaþingi verður sett á morgun, fimmtudaginn 25. júlí, og kennir þar margra grasa eins og endranær en þetta er í 17. sinn sem hátíðin er haldin. Hún stendur til sunnudags og rekur hver viðburðurinn annan á dagskránni sem er stútfull af spennandi atriðum.

Á heimasíðu Eldsins segir m.a. um hátíðina: „Hún er tónlistar- og listahátíð, fimm daga samkoma sem býður upp á fjölda tónleika, leikja og sýninga sem sýna fremstu fulltrúa í tónlist, dansi, gamanleik, kvikmyndum, fjölleikahúsi, götulistum og fjölskylduskemmtunum á Íslandi og erlendis.“

Eins og áður segir hefst hátíðin þann 25. júlí. Allan þann dag verða ýmiss konar viðburðir í boði víðsvegar um Hvammstanga fyrir fólk á öllum aldri. Opnunarhátíðin sjálf hefst svo klukkan 18:00 við Félagsheimilið á Hvammstanga þar sem m.a. verður boðið upp á gómsæta heimalagaða súpu, leiki, listsýningar og ýmsa óvænta viðburði. Táningaball fyrir 13-17 ára verður haldið um kvöldið í Félagsheimilinu Ásbyrgi á Laugarbakka þar sem Clubdub leikur fyrir dansi og í Félagsheimilinu á Hvammstanga verður Melló Músika þar sem fram kemur tónlistarfólk úr heimahéraði og skapar huggulega stemningu með flutningi á ljúfum tónum. Að því loknu taka við tónleikar með sveitinni BeeBee and the Bluebirds.

Engin leið er að telja hér upp alla þá fjölmörgu viðburði sem eru á dagskrá hátíðarinnar en þeir munu vera rúmlega 40 talsins og er ókeypis inn á 33 þeirra. Svo örfáir séu taldir má nefna raftónlistarsmiðju á fimmtudegi, brúðuleiksýningu frá pólsku brúðuleikhúsi fyrir yngstu kynslóðina og heimsmeistaramót í Kleppara á föstudegi, kraftakeppnina Eldraunina og fjölskyldudag með fjölbreyttri skemmtun á laugardegi og timburmannadögurð á sunnudegi. Stærstu tónlistarviðburðirnir eru árvissir tónleikar í Borgarvirki sem haldnir verða á föstudagskvöld. Að þessu sinni koma þar fram tónlistarmennirnir Högni sem flestir Íslendingar þekkja og hin lettneska Díana Sus sem er söngkona, hljóðfæraleikari og lagahöfundur en hún hefur stundað nám í skapandi tónlist við tónlistaskólann á Akureyri. Ljótu hálfvitarnir spila seinna sama kvöld í Félagsheimilinu á Hvammstanga og á laugardag verður þar fjölskylduball með Páli Óskari en þar verður einnig Pallaball fyrir 16 ára og eldri um kvöldið.

Á laugardaginn milli klukkan 16 og 17 verður hin upprennandi hljómsveit Ateria með tónleika við varðeld og kakó í Kirkjuhvammi en hljómsveitin, sem er skipuð ungu fólki sem á ættir að rekja í Miðfjörðinn, vann Músíktilraunir í mars 2018.

Lokaatriði hátíðarinnar í ár verður söngkonan Soffía Björg sem heldur notalega tónleika í Ásbyrgi.

Dagskrá hátíðarinnar í heild má nálgast á Facebooksíðu hátíðarinnar, Eldur í Húnaþingi/viðburðir og einnig hér.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir