Melissa Garcia og Rakel Sjöfn til liðs við Stólastúlkur

Á Tindastóll.is segir frá því að nýr bandarískur leikmaður, Melissa Alison Garcia, sé gengin í raðir kvennaliðs Tindastóls í Lengjudeildinni en Melissa er einnig með ríkisborgararétt í Lúxemborg.Hún er fædd árið 1991 og er kunnug næst efstu deild á Íslandi en árið 2020 spilaði hún með Haukum en eftir að hafa spilað einungis fjóra leiki með Hafnfirðingum sleit hún krossbönd og kom ekki meira við sögu.

„Melissa er reynslubolti sem kemur í okkar hóp með mikinn kraft og reynslu. Melissa er sóknarþenkjandi leikmaður sem getur þó spilað margar stöður á vellinum. Hún mun gefa okkur enn meiri dýpt og gæði í hópinn okkar fyrir þann hluta mótsins sem eftir er. Við væntum mikils af Melissu og ég vænti þess að allir taki vel á móti henni eins og við höfum alltaf gert,”segir Donni þjálfari um Melissu.

Hún lék nú síðast með Preston Lions í næst efstu deild í Ástralíu og þar áður með KFF Vllaznia í Albaníu sem leikur þar í efstu deild og spilaði hún meðal annars með þeim í Meistaradeild Evrópu þar sem liðið komst í aðra umferð.

Melissa er komin með leikheimild og var í leikmannahópnum gegn HK í kvöld og spilaði síðari hálfleikinn.

Rakel Sjöfn á ný til liðs við Stólastúlkur

Þá má geta þess að Rakel Sjöfn Stefánsdóttir kom að láni frá Þór/KA nú undir lok leikmannaskiptagluggans en hún spilaði með liði Tindastóls sumarið 2020 þegar Stólastúlkur reykspóluðu sig upp í efstu deild. Rakel spilaði þá tíu leiki með liðinu og gerði í þeim tvö mörk. Hún, líkt og Melissa og Claudia, á eftir að styrkja hópinn fyrir lokaátökin í Lengjudeildinni.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir