Menningarhátíð í Blönduhlíðinni

Frá Syðstu-Grund. Mynd: Hjalti Árnason.
Frá Syðstu-Grund. Mynd: Hjalti Árnason.

Það verður glatt á hjalla í Blönduhlíðinni um næstu helgi þegar menningarhátíðin Listaflóð á vígaslóð verður haldin á Syðstu-Grund og Kakalaskála dagana 7. og 8. júlí. 

Föstudagskvöldið 7. júlí kl. 20.30 verður opið útgáfuteiti í Kakalaskála en þar mun Hinrik Már Jónsson á Syðstu-Grund kynna fyrstu ljóðabók sína, „Lífsmark handan fjallsins“. Bókin byggir á samspili ljóða og mynda og kallar höfundur ljóðin sín myndljóð. Boðið verður upp á léttar veitingar og einnig verður tónlistardagskrá.

Laugardaginn 8. júlí verður einnig mikið um dýrðir. Klukkan 14:00 hefst markaðstemning „í garðinum hennar mömmu” á Syðstu-Grund. Þar kennir ýmissa grasa. Boðið verður upp leiki fyrir börn og fullorðna, lifandi tónlist, handverk og hugverk. Stofutónleikar verða kl. 15:00. Þar mun hið frábæra harmóníkutríó Tríó ítríó leika listir sínar en meðlimir þess eru þau Helga Kristbjörg Guðmundsdóttir, Jón Þorsteinn Reynisson og Jónas Ásgeir Ásgeirsson. Að sjálfsögðu verður Lilla á Grund klár með kaffiveitingar.

Hátíðinni lýkur síðan með tónleikum kl. 17:00 í Kaklaskála en þar mun Kalmanskórinn frá Akranesi flytja dagskrá upp úr Ljóðum og lögum. Ljóð og lög eru sönghefti sem Þórður Kristleifsson safnaði efni í og gaf út á árunum 1939-1949. Í Kakalaskála munu hljóma fágætar perlur í bland við aðrar þekktari. Það er Sveinn Arnar frá Syðstu-Grund sem leiðir kórinn. 

Aðstandendur listaflóðsins bjóða alla hjartanlega velkomna á viðburðina. 
/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir