Menntasjóður í stað Lánasjóðs

Mynd af vef mennta- og menningarmálaráðuneyti.
Mynd af vef mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra mælti í gær á Alþingi fyrir frumvarpi um Menntasjóð námsmanna sem mun koma í stað Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Frumvarpið felur í sér grundvallarbreytingu á stuðningskerfi ríkisins við námsmenn, þar sem lánþegar fá 30% niðurfærslu af höfuðstól námsláns ef þeir ljúka námi innan ákveðins tíma og námsmenn með börn á framfæri beinan stuðning í stað lána áður. Hvoru tveggja verður undanþegið lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Í tilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneyti kemur fram að skuldastaða námsmanna við námslok verði betri, endurgreiðslutíminn skemmri og námsmenn velja sjálfir við námslok hvort námslán séu verðtryggð eða óverðtryggð. Samhliða falla ábyrgðir ábyrgðarmanna á eldri námslánum niður, ef lánin er í skilum og lántaki ekki á vanskilaskrá.

„Menntasjóður námsmanna boðar nýja tíma. Nýja kerfið er sanngjarnara, gagnsærra og réttlátara. Það mun leiða til betri fjárhagsstöðu námsmanna og skuldastaða að námi loknu mun síður ráðast af fjölskylduaðstæðum. Þá er innbyggður í kerfið hvati til bættrar námsframvindu, sem stuðlar að betri nýtingu fjármuna og aukinni skilvirkni. Þjóðhagslegur ávinningur þess er metinn yfir milljarð kr. á ári,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. 

Í núverandi stuðningskerfi við námsmenn er námsstyrk ríkisins misskipt milli lánþega, þar sem stærstur hluti hans fer til námsmanna sem taka hæstu námslánin og fara seint í nám. Þau sem hefja nám ung og taka hóflegri námslán eru líklegri til að greiða þau til baka að fullu og hafa því ekki fengið sama styrk frá ríkinu. Lánþegar hafa í núverandi kerfi litla sem enga yfirsýn yfir hversu háan styrk þau hljóta frá ríkinu.

Sjá nánar HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir