Metafli hjá Málmeynni

Vefurinn Aflafréttir.is greinir frá því í dag að togarinn Málmey SK 1 hafi komið með metafla úr síðasta túr sínum. Afli skipsins var 252,1 tonn og af því var þorskur 227 tonn. Segir á síðunni að þetta sé langmesti afli sem Málmeyjan hefur komið með að landi síðan skipið hóf veiðar sem ísfisktogari.

Veiðin í þessum síðasta túr sló út nýsett met hjá skipinu sem sett var nú um áramótin þegar það veiddi 237,3 tonn á aðeins fjórum dögum.

Á Málmeynni eru tveir skipstjórar sem skipta milli sín túrum, þeir Björn Jónasson og Ágúst Ómarsson en sá síðarnefndi var skipstjóri í þessum síðasta túr. Sagði hann í samtali við Aflafréttir.is að veiðin hefði verið jöfn og góð alla fimm dagana sem túrinn tók en togarinn var við veiðar á Strandagrunni. Ekki er öll veiði jafn skemmtileg en í túrnum kom úldið hvalshræ í trollið með tilheyrandi fnyk. Til allrar lukku fór hvalurinn þó ekki niður í fiskmóttökuna þar sem hann var fastur ofarlega í belgnum og þurfti því bara að rista á og sturta honum úr trollinu. Skipstjórinn segir í lok viðtalsins að á Málmey sé frábær, jákvæð og samhent áhöfn,  „það eru engin vandamál, bara lausnir,“ segir Ágúst Ómarsson í samtalinu við Aflafréttir.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir