Miðfjörðurinn mun nötra

Plakatið fyrir Norðanpaunk er vígalegt. Mynd: Fb,Norðanpaunk.
Plakatið fyrir Norðanpaunk er vígalegt. Mynd: Fb,Norðanpaunk.

Um verslunarmannahelgina verður Norðanpaunk, ættarmót paunkara, haldið í 11. sinn á Laugarbakka í Miðfirði. Áhersla hátíðarinnar frá upphafi hefur ávallt verið á óvanalega íslenska jaðartónlist, en nokkrar erlendar sveitir hafa einnig mætt á svæðið og spilað fyrir gesti. Hægt að sjá nánar um hátíðina á  facebook-Norðanpaunk.

Ein þekktasta hljómsveitin sem kemur fram á hátíðinni er kvennasveitin „Kælan mikla" en í kynningu á Norðanpaunki segir svo:

„ Kælan Mikla ferðast um heim þjóðsagna og ævintýra, galdra og dulspeki. Hljóðræn landslög úr synthum, draumkenndum söng, kvalarópum og drynjandi bassalínum ráða ríkjum og draga hlustendur sífellt dýpra inn í ævintýraheim þeirra. Kælan Mikla var stofnuð árið 2013 og festi sig fljótlega í sessi sem traustur hluti af grasrótar senunni í Reykjavík. Síðan hóf sveitin að ferðast um heiminn og hefur komið fram á tónleikaferðalögum með listamönnum á borð við Chelsea Wolfe, Ville Valo og Alcest. Kraftmikil framkoma Kælunnar Miklu hefur heillað hlustendur um allan heim, þar á meðal Robert Smith úr The Cure, sem hefur boðið hljómsveitinni að spila á nokkrum hátíðum sem hann hefur sjálfur stýrt, bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi. Hjarta Kælunnar Miklu á samt alltaf heima í grasrótarsenunni á Íslandi og þær hlakka mikið til að koma aftur fram á Norðanpaunki.”

Auk Kælunnar miklu koma margar aðrar hljómsveitir fram þannig að það verður auðvelt að hrista úr sér hrollinn (ef verður kalt) á Norðanpaunki á Laugarbakka. Feykir skorar á alla laumu paunkara að koma út úr skápnum og drífa sig á Norðanpaunk. /hmj

Fleiri fréttir