Miðlæg afleysingaþjónusta fyrir bændur
Bændasamtökin í samstarfi við aðildarfélög sín vinna að því að koma á fót miðlægri afleysingaþjónustu fyrir bændur vegna COVID-19 veirunnar. Óskað er eftir áhugasömu fólki til að skrá sig á viðbragðslista með það fyrir augum að taka að sér tímabundna afleysingu á búum, ef til þess kemur að bændur veikist vegna COVID–19.
Í tilkynningu á vef Bændasamtakanna segir að afleysingin sé fyrst og fremst miðuð að því að mæta þörfum einyrkja í landbúnaðarframleiðslu en ekki til að sinna sérhæfðari störfum á stærri búum. Þá er bent á nauðsyn þess að bændur hafi aðgengilega vinnuhandbók komi til þess að kalla þurfi til afleysingu á búinu.
Skráning fer fram með því að senda póst á netfangið afleysing@bondi.is.