Mikil mengun en enginn mælir á Blönduósi
Mikil mengun er á Blönduósi en enginn mengunarmælir er á svæðinu og því vita íbúar ekki hversu mikil mengun mælist frá eldgosinu í Holuhrauni, að því er haft er eftir Jóni Sigurðssyni fréttaritara Morgunblaðsins á vefnum mbl.is.
Tilkynning barst frá skólastjóra Blönduskóla í morgun um að ákveðið hefði verið að engin útikennsla yrði í dag, nemendum á yngsta stigi yrði haldið inni í frímínútum og nemendum á miðstigi var einnig boðið upp á það að vera inni í frímínútum.
Lögreglan á Sauðárkróki hefur fylgst með ástandi loftgæða í bænum og víðsvegar um Skagafjörð og hefur ástandið lagast verulega eftir því sem liðið hefur á morguninn. Mengunin þar mælist því ekki lengur í flokknum "óholl" samkvæmt töflu sem sjá má á vef Umhverfisstofnunar.