Mikill fjöldi tók þátt í Laufskálaréttarhelgi

Mikill fjöldi fólks tók þátt og fylgdist með þeim fjölmörgu atriðum sem voru í boði á Laufskálaréttarhelgi. Lögreglan segir að allt hafi farið vel fram.

Á föstudag var haldin sölusýning á svæði Léttfeta þar sem mörg glæsihross voru til sýnis og sölu og eflaust hafa tekist samningar um hrossakaup. Um kvöldið var haldin stórsýning og skagfirsk gleði þar sem fólk skemmti sér vel undir skemmtilegum atriðum en það var álit gesta að atriðin hafi verið góð, stutt og hnitmiðuð.

Á laugardeginum mætti fjöldi manns í Kolbeinsdalinn til að fylgja stóðinu til Laufskálaréttar og var það mat manna að ekki hafi verið svo margt áður. Það óhapp varð í grennd við réttina að ung kona sleit krossbönd í hné er hún lenti illa eftir að hún datt en hún var að fara á bak æstum hesti sínum er hann rauk af stað. Hún var flutt með sjúkrabíl á Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkrók og síðar á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri þar sem hún gekkst undir aðgerð. Í réttunum voru um 600 hross dregin í dilka og gekk það allt slysalaust fyrir sig.

Um kvöldið var haldinn stórdansleikur í reiðhöllinni Svaðastaðir þar sem á þriðja þúsund manns komu saman til að skemmta sér undir tónum Vonarmanna ásamt gestasöngvurum.

Að sögn lögreglu fór allt mjög vel fram alla helgina, veðrið gott og menn slakir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir