Miklir möguleikar opnast með tilkomu færanlegrar rannsóknarstofu

Nemandi í fiskeldi á Hólum. Myndin er nokkurra ára gömul. MYND: HÓLASKÓLI
Nemandi í fiskeldi á Hólum. Myndin er nokkurra ára gömul. MYND: HÓLASKÓLI

Nú nýverið var greint frá styrkjum úr Innviðasjóði Rannís (Rannsóknamiðstöð Íslands) fyrir árið 2022 en alls bárust sjóðnum 28 umsóknir þar sem samtals var sótt um 922 milljónir króna. Meðal þeirra sem hlutu uppbyggingarstyrk að þessu sinni var Hólaskóli – Háskólinn á Hólum en í hans hlut komu rétt tæplega 10 milljón króna styrkur til kaupa á færanlegri rannsóknarstofu til sjávar- og vatnarannsókna á Íslandi. Feykir lagði örfáar spurningar fyrir Bjarna Kristófer Kristjánsson, forsvarsmann umsóknarinnar og prófessors á Fiskeldis- og fiskalíffræðideild skólans, en hann segir deildina hafa verið í töluverðri sókn á síðustu árum.

Þetta hefur endurspeglast í fjármagni til rannsókna, fjölda nýrra starfsmanna, fjölda nemenda og auknum fjölda vísindagreina frá deildinni en á síðasta ári voru þær vel yfir þrjátíu. „Þessi sókn kom greinilega fram í nýlegri úthlutun úr rannsóknasjóði, þar sem að fimm styrkir komu til deildarinnar, þrír doktorsnemendur fengu styrki til sinna rannsókna og veittir voru tveir verkefnastyrkir, sem báðir eru til þriggja ára,“ segir Bjarni Kristófer. „Samtals var hér um að ræða um sextíu miljónir króna.“ Þá fékkst sem fyrr segir einnig styrkur úr Innviðasjóði til uppbyggingar færanlegrar rannsóknarstofu til sjávar- og vatnarannsókna.

Hvers konar gripur er færanleg rannsóknarstofa og Hverju breytir þetta fyrir kennsluna og gefur þetta nýja möguleika? „Færanlega rannsóknastofan er í grunninn vagn sem innréttaður er með aðstöðu til vísindarannsókna, borð, rennandi vatn, rafmagn o.s.frv. Vagninn er upphitaður og þar er salernisaðstaða. Með vagninum kemur svo tækjabúnaður, sem nýtist í honum, eða inni á rannsóknarstofum deildarinnar, auk þess sem þau tæki sem skólinn á fyrir er hægt að nýta í vagninum,“ segir Bjarni en þessi nýju tæki eru fullkomin víðsjá og smásjá, vogir og ljósmyndabúnaður til ljósmyndunar á fiskum og öðrum lífverum.

Aukinn áhugi á námi í fiskeldi

Bjarni bendir á að deildin hafi á síðustu áratugum stundað víðtækar rannsóknir úti í náttúrunni. „Skólinn er t.d. með tvö stór vöktunarverkefni við Mývatn, á dvergbleikju og hornsílum, og hefur stundað rannsóknir á hegðun laxfiska í ám víða á norðurlandi. Auk þess hafa rannsóknir farið fram á vatnafiskum víða um land. Oft er unnið að þessum rannsóknum við mjög frumstæðar aðstæður, þar sem unnið er utandyra í hvaða veðri sem er. Við slíkar aðstæður er ekki hægt að nota allan þann tækjabúnað sem rannsakendur mundu vilja, auk þess að rannsakendur þurfa oft að dvelja í tjöldum. Auk þessa hafa rannsóknir á veturnar í miklum kulda verið ómögulegar. Með tilkomu rannsóknarstofunnar opnast miklir möguleikar til þess að bæta þær rannsóknir sem nú eru stundaðar og efla rannsóknir við erfið skilyrði. Einnig verður rannsóknastofan aðgengileg öðrum vísindamönnum sem glímt hafa við svipuð vandamál og við.“

Hvenær áttu von á að stofan verði komin í gagnið?Á næstu dögum verður gengið í það að ganga frá pöntunum á tækjunum og gert er ráð fyrir að þau verði komin í gagnið næsta sumar.“

Er aukinn áhugi á námi tengdu fiskeldi? „Við höfum orðið vör við mikinn aukinn áhuga á námi í fiskeldi, sérstaklega á síðustu tveimur árum. Nú eru vel á þriðja tug nemenda skráðir í diplómanám í fiskeldisfræðum. Þetta er mjög ánægjuleg þróun. Að einhverju leiti tengist hún kannski Covid og að fólk sæki frekar í nám, en við höfum t.d. brugðist við faraldrinum með því að bjóða fólki síðustu tvö ár að hefja nám um áramót. Það hefur gefist vel. Þessa aukningu má að sjálfsögðu einnig skýra með mikilli aukningu á fiskeldi á Íslandi, en árið 2021 var algjört metár í framleiðslu á eldisafurðum, sérstakelga laxi. Svo virðist sem að árið 2022 muni slá þetta met. Fiskeldi er hátækniiðnaður þar sem að krafan er vaxandi um vel menntað starfsfólk. Þannig er stór hluti nemenda okkar starfandi í greininni þegar við upphaf náms. Þessi blanda af reynslu nemenda er ákaflega gagnleg fyrir nám og kennslu.“

Bjarni bætir við að til viðbótar við þessa aukningu þá hefur einnig orðið mikil aukning á rannsóknarnemendum við deildina. „Deildin býður upp á tvær námslínur til meistaranáms og hafa sérfræðingar hennar leiðbeint doktorsnemum. Er töluverður hópur nemenda á þessum námslínum. Einnig höfum við tekið á móti erlendum rannsóknarnemendum sem koma hér til skemmri dvalar (6 vikur - 6 mánuðir) og vinna að verkefnum tengdum yfirstandandi rannsóknarverkefnum. Á árinu 2021 voru rúmlega þrjátíu slíkir nemendur sem stunduðu nám við deildina, og útlit er fyrir verulegann fjölda á árinu 2022. Greinilegt er þannig að deildin og Háskólinn á Hólum er í vaxandi mæli valkostur fólks til þess að auka þekkingu og færni sína,“ segir Bjarni Kristófer að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir