Móðgaður Magnús
Magnús Stefánsson, alþingismaður fjallar um Bjarna Harðarson á heimasíðu sinni í gærkvöld og þá ekki síst þau ummæli Bjarna að með honum og Guðna hafi farið einu sönnu framsóknarmenn þjóðarinnar. Segir Magnús þessa fullyrðingu grófa móðgun við sig og marga aðra framsóknarmenn, sem marigir hafi litið á sig sem meiri framsóknarmenn en Bjarna Harðarson.
Hér kemur pistill Magnúsar í heild.
Ég ætla ekki hér og nú að fjalla um afsögn Guðna Ágústssonar sem formanns Framsóknarflokksins og alþingismanns. Geri það síðar.
Hins vegar vil ég hér fjalla um Bjarna Harðarson, fráfarandi félaga minn og vin í þingflokki Framsóknarmanna. Við áttum að mínu mati mjög gott samstarf, ég lagði mig fram um að setja hann inn í störf Fjarlaganefndar, þar sem hann var okkar fulltrúi, og lagði mig fram um að miðla reynslu minni og þekkingu til hans, eftir að hann kom inn í þingflokkinn eftir síðustu kosningar. Mér fannst Bjarni góður félagi og mér fannst við eiga gott samstarf.
Eftir alvarleg afglöp hans, þegar hann í aðdraganda fundar miðstjórnar Framsóknarflokksins, reyndi að koma á framfæri sendingu flokksfélaga á nafnlausan hátt til fjölmiðla, sem áttu að koma sér illa fyrir Valgerði varaformann, sagði hann af sér þingmennsku. Svona vinnubrögð getum við Framsóknarmenn ekki sætt okkur við og Bjarni brást við í samræmi við það.
Í nýjum pistli sínum á heimasíðu sinni í dag, telur Bjarni að afsögn Guðna Ágústssonar sem formaður og þingmaður sé vegna atlögu Valgerðar Sverrisdóttur og hennar "fylgismanna" að Guðna. Ég veit ekki til að slík atlaga hafi verið í gangi.
Í pistli á heimasíðu sinni virðist Bjarni Harðarson líta á sig og Guðna sem einu sönnu framsóknarmenn þjóðarinnar. Sú fullyrðing er gróf móðgun við mig og marga aðra framsóknarmenn, margir þeirra hafa litið á sig sem meiri framsóknarmenn en Bjarna Harðarson.
Svona sperrileggsháttur sem Bjarni vinur minn sýnir af sér á sér ekki stoð í raunveruleikanum. Ég veit að margir flokksmenn í Framsóknarflokknum telja sig meiri framsóknarmenn en Bjarna Harðarson. Ég er í þeim hópi.
Bjarni, minn góði vinur, farðu nú ekki fram úr sjálfum þér núna, nóg er komið af slíku.