Mótmæla harðlega skerðingum í fjárlagafrumvarpi
feykir.is
Skagafjörður
30.09.2014
kl. 14.49
Stjórn Verslunarmannafélags Skagafjarðar hefur sent frá sér ályktun vegna fjárlagafrumvarps Ríkisstjórnarinnar. Móttmælir félagið harðlega þeim skerðingum sem fram koma í fjárlagafrumvarpi 2015.
„Þrátt fyrir að forystumenn ríkisstjórnarinnar haldi því fram að fjárlagafrumvarpið bæti hag heimila að meðaltali, þá er ljóst að það gildir ekki um tekjulægri hópa samfélagsins,“ segir í ályktuninni.
Stjórn Verslunarmannafélags Skagafjarðar gerir miklar athugasemdir við:
- Hækkun lægra þreps virðisaukaskatts úr 7% í 12%
- Skerðingu réttar til atvinnuleysisbóta
- Að ekki verði staðið við gefin fyrirheit um framlag til VIRK - Starfsendurhæfingarsjóðs
- Skerðingu framlaga til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða
- Skert framlög til menntamála sem bitna m.a. annars mjög harkalega á Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra þrátt fyrir fögur orð á hátíðarstundum um eflingu iðnmenntar í landinu og fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni.
- Skert framlög til heilbrigðismála sem enn og aftur bitna m.a. á Heilbrigðisstofnuninni Sauðárkróki.
„Stjórn Verslunarmannafélags Skagafjarðar skorar á Ríkisstjórn Íslands að endurskoða framkomið fjárlagafrumvarp. Nú er kominn tími á að hlusta á fólkið í landinu,“ segir loks í ályktuninni.