Myndin af Grýlu í Vísnabókinni minnisstæð

Sigurlaug Rún Brynleifsdóttir blaðar í góðri bók. Aðsend mynd.
Sigurlaug Rún Brynleifsdóttir blaðar í góðri bók. Aðsend mynd.

Bók-haldarinn í fimmta tölublaði ársins 2018 var Sigurlaug Rún Brynleifsdóttir, eða Silla í Dalsmynni, sem er deildarstjóri í Grunnskólanum austan Vatna.  Það er óhætt að segja að Silla hafi talsverða tengingu við lestur en hún hefur unnið mikið með læsi í skólum og stýrði meðal annars vinnu við Lestrarstefnu Skagafjarðar sem út kom haustið 2017. Hún segist hafa gaman af ævisögum og ýmiss konar uppflettiritum og fræðibókum en íslenskar skáldsögur séu þó það sem hún lest mest af.

Hvaða bækur voru í uppáhaldi hjá þér þegar þú varst barn?  
Pési grallaraspói og Mangi vinur hans eftir Ole Lund Kirkegaard var í miklu uppáhaldi hjá mér þegar ég var barn ásamt Baldintátubókunum eftir Enid Blyton. Svo má auðvitað ekki gleyma Salómon svarta sem var lesinn aftur á bak og áfram. Það er ein bók sem er mér sérstaklega minnistæð frá barnæskunni og sennilega vegna þess að mér fannst ég vera að lesa „alvöru“ bók, en það var bókin Marína eftir Jón Thorarensen.

Hver er uppáhaldsbókin af þeim sem þú hefur lesið gegnum tíðina?
Uppáhaldsbókin mín er án efa Jóladraumur eftir Charles Dickens, algjör klassík.

Hver er þinn uppáhaldsrithöfundur og hvers vegna?
Þetta er erfið spurning. Það koma nokkur nöfn upp í hugann, t.d. Vigdís Grímsdóttir, Bragi Ólafsson, Jón Kalman Stefánsson og Guðmundur Andri Thorsson. Þetta eru svona þeir höfundar sem ég hef leitað svolítið í, en ég get ekki sagt að einhver einn þeirra sé meira uppáhalds en annar.

Hvaða bók/bækur eru á náttborðinu hjá þér þessa dagana?
Náttborðsstaflinn litast töluvert af áhugamálunum. Núna er ég að lesa bókina Konan í dalnum og dæturnar sjö en auk hennar eru Garðrækt í sátt við umhverfið og Fjallvegahlaup á náttborðinu hjá mér.  

Ertu fastagestur á einhverju bókasafni?
Því miður hef ég ekki verið dugleg að nota bókasöfn. Sennilega stafar það af því að ég á svo mikið af ólesnum bókum hér heima. Þegar ég fer á bókasafn þá verður bóksafn skólans sem ég starfa við helst fyrir valinu.

Áttu þér uppáhaldsbókabúð (hér heima eða erlendis)?
Ég á mér enga uppáhaldsbúð, en ég kem nú oftast við í Pennanum þegar ég á leið til Akureyrar og síðan reyni ég að fara árlega á Bókamarkaðinn.

Hvað áttu margar bækur í bókahillunum heima hjá þér?
Miðað við að ég hef ekki komist yfir að lesa þær allar þá eru þær sennilega alltof margar. Eftir grófa útreikninga myndi ég giska á að þær væru á bilinu fimm til sexhundruð og þá tel ég barnabækurnar að sjálfsögðu með.

Hvað kaupirðu eða eignast að jafnaði margar nýjar bækur yfir árið?
Líklega eignast ég á bilinu 3-6 bækur á ári. Hins vegar kaupi ég mun fleiri til að gefa öðrum.

Eru ákveðnir höfundar/bækur sem þú færð „alltaf“ í jólagjöf?
Ég hef ekki verið í jólagjafaáskrift að bókum nema að þeim árum undanskildum þegar Jón Kalman Stefánsson og Vigdís Grímsdóttir gáfu út þríleikana sína.

Hefur einhver bók sérstakt gildi fyrir þig?
Sú bók sem fyrst kemur upp í hugann er Vísnabókin en hún var til á mínu æskuheimili og var mikið lesin. Ég keypti hana að sjálfsögðu handa mínum börnum og ef ég man rétt var eldri dóttir mín tveggja mánaða þegar ég keypti bókina og byrjaði að raula og lesa vísurnar fyrir hana. Myndirnar í bókinni eru svo greiptar í minnið og þá sérstaklega myndin af Grýlu sem mér fannst mjög ógnvekjandi þegar ég var barn. Ég gerði alltaf ráð fyrir því að systkini mín hefðu borið jafn óttablandna virðingu fyrir Grýlu og ég. Þess vegna tók ég mig til fyrir nokkrum árum og saumaði bútasaumsmynd af Grýlu í dúka ásamt broti úr vísunni Grýla reið með garði og gaf systkinum mínum í jólagjöf. Dúkarnir vöktu að sjálfsögðu mikla lukku.

Hefur þú heimsótt staði sem tengjast bókum eða rithöfundum þegar þú ferðast um landið eða erlendis?
Ég hef ekki gert mikið af því en hins vegar finnst mér mjög skemmtilegt að lesa sögur sem gerast á svæðum þar sem ég hef komið og þekki jafnvel til staðhátta. Ein slík tenging átti sér stað þegar ég las Sendiherrann eftir Braga Ólafsson en þegar ég las þá bók þá hafði ég nýlega farið með kvenfélagi Hólahrepps í ferð til Vilnius í Litháen og kannaðist því að einhverju leyti við þá staðhætti sem Bragi lýsir í bókinni. Skemmtileg tilviljun að bókin skyldi koma út sama ár og ég fór til Vilnius.

Ef þú ættir að gefa einhverjum sem þér þykir vænt um bók, hvaða bók yrði þá fyrir valinu?
Ef ég myndi vilja koma einhverjum til að hlæja myndi ég gefa viðkomandi Bítlaávarpið eftir Einar Má Guðmundsson. Ég mæli líka með henni fyrir þá sem hafa ekki lesið lengi og halda að þeir hafi ekkert gaman af bóklestri. Börnum myndi ég gefa bækurnar Dimmalimm og Helgi skoðar heiminn.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir