Nautasteik og eplaeftirréttur með kókos og súkkulaði

Matgæðingarnir Karl og Valgerður á Mýrum. Aðsend mynd.
Matgæðingarnir Karl og Valgerður á Mýrum. Aðsend mynd.

Á Mýrum 3 við austanverðan Hrútafjörð búa þau Karl Guðmundsson og  Valgerður Kristjánsdóttir ásamt fleira fólki.  Á bænum er búið með fjölda nautgripa, 60 kýr og kálfa og einnig á þriðja hundrað fjár, einn kisa og einn hund ásamt þremur hestum. 

„Á Mýrum 3 má segja að starfrækt hafi verið mötuneyti því við vorum að byggja vélageymslu og höfðum smiði í mat og kaffi í mars og apríl. Það tíðkast enn til sveita að iðnaðarmenn séu í mat og kaffi. Í maí tók síðan sauðburður við. Það er því oft eitthvað í pottunum eða ofninum,“ sögðu þau Karl og Valgerður sem voru matgæðingar í 22. tbl. Feykis árið 2018 en þau buðu að sjálfsögðu upp á nautasteik og ljúffenga eplaköku í eftirrétt. 

AÐALRÉTTUR
Nautasteik með smjörsteiktum kartöflum

Þetta er fljótlegur og góður réttur sem hægt er að undirbúa fyrirfram ef vill.
Hráefni handa 5-6 manns:

1 kg góður nautavöðvi
1½ kg stórar kartöflur
salt
pipar
350 g smjör

Aðferð:
Kartöflurnar skornar í sneiðar. Steiktar í smjöri á pönnu á báðum hliðum og látnar í eldfast mót með kjötinu. Saltað yfir.
Kjötið er steikt á öllum hliðum í smjöri, saltað og piprað, má gera fyrirfram. Kjötið er látið bíða um stund svo kjötsafinn renni minna úr því. Þá er það skorið í ½ cm þykkar sneiðar þvert á vöðvann. Sneiðunum er raðað í eldfast mót. Smjör skorið í sneiðar og lagt ofan á kjötið. Kartöflum raðað meðfram.
Fatið látið í 250°C (480°F) heitan ofn í 15-20 mínútur eða þar til smjörið er hálfrunnið og allt orðið heitt.
Borið fram með salati. 

EFTIRRÉTTUR
Eplaeftirréttur með kókos og súkkulaði

Fenginn úr bókinni Seinni réttirFleiri uppskriftir úr fórum Jóhönnu Vigdísar, bls. 111

5 epli
2 dl sykur
100 g suðusúkkulaði, smátt saxað
1 dl haframjöl
1 dl kókosmjöl
100 g brætt smjör

Aðferð:
Afhýðið eplin og skerið þau í litla bita. Setjið vatn í pott, bætið ½ dl af sykrinum saman við, látið suðuna koma upp og sjóðið eplabitana í vatninu þar til þeir eru orðnir svolítið mjúkir. 
Veiðið eplabitana upp úr soðinu og dreifið þeim á botninn á eldföstu móti. Stráið súkkulaðibitunum yfir. Sáldrið síðan haframjöli, kókosmjöli og því sem eftir er af sykrinum yfir. Bræðið smjörið og hellið því yfir réttinn.
Bakið réttinn í ofni við 175°C í 15-20 mínútur eða þar til súkkulaðið hefur bráðnað og smjörið kraumar.
Þetta er eftirréttur sem sómir sér fullkomlega á hlaðborði eða sem sérréttur með góðu kaffi. Það er ekkert mál að undirbúa hann í tíma og hita svo í ofninum rétt áður en hann er borinn  fram. Berið fram með ís eða rjóma.
Þá getur verið gott að nota soðið af eplunum í eplapúns, soð og vodki og drekka heitt. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir