Nemendur Varmahlíðarskóla sýna söngleikinn Cry-Baby

Í dag og á morgun halda eldri bekkir Varmahlíðarskóla árshátíð sína. Eins og undanfarin ár verður mikið um dýrðir og hafa krakkarnir, ásamt kennurum sínum, ráðist í uppsetningu á söngleiknum Cry-Baby sem sýndur verður í Miðgarði í dag, fimmtudaginn 17. janúar, klukkan 17:00 og annað kvöld klukkan 20:00. Eftir sýninguna í dag verður boðið upp á veislukaffi í Varmahlíðarskóla en annað kvöld verður, að sýningu lokinni, haldið unglingaball fyrir 7.-10. bekk þar sem meðlimir úr Hljómsveit kvöldsins sjá um stuðið.

Söngleikurinn Cry-baby eða Vælukjói á rætur að rekja til bíómyndar eftir leikstjórann John Waters sem einnig er faðir myndanna Hársprey, Edward Scissorhands, Serial Mom og fleiri bíómynda, að sögn Írisar Olgu Lúðvíksdóttur, sem leikstýrir sýningunni ásamt Trostan Agnarssyni.  Handritið sem unnið er eftir í sýningunni er þýtt og staðfært af Björk Jakobsdóttur. „Sagan gerist á sjötta áratugnum og fylgir eftir ólánsömum elskendum úr sitthvorri klíkunni - hjólhýsapakkslegu hyskinu og yfirmáta sjálfumglöðum hnökkum,“ segir Íris. 

Íris segir að nemendur 10. bekkjar hafi unnið hægt og bítandi að undirbúningi árshátíðarinnar í allan vetur. Nemendur 8. og 9. bekkjar komu síðar inn í ferlið og loks 6. og 7. bekkur en allt var sett á fullt við undirbúning eftir jólafrí og æft alla daga.

Aðeins verða þessar tvær sýningar á verkinu og rétt er að geta þess að ekki er hægt að greiða með greiðslukortum. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir