Nick Tomsick búinn að skrifa undir við Tindastól

Við undirritun samnings fyrr í dag. Aðsend mynd.
Við undirritun samnings fyrr í dag. Aðsend mynd.

Þau tíðindi bárust út í dag að körfuknattleiksmaðurinn Nick Tomsick væri búinn að skrifa undir samning við körfuknattleiksdeild Tindastóls fyrir næsta tímabil. Tomsick lék með Stjörnunni í vetur en var undir stjórn núverandi þjálfara Stólanna, Baldurs Þórs Ragnarssonar, í Þór Þorlákshöfn tímabilið þar áður.

Baldur segir þá félaga hafa verið í góðu sambandi og þeir rætt eftir tímabilið möguleikana á að vinna aftur saman. „Við náðum að landa þessu í dag,“ sagði Baldur í samtali við Feyki. „Tomsick spilaði mjög vel með Stjörnunni í vetur og hefur sýnt fram á það að hann er hágæða leikmaður, þannig að þetta er klárlega góð viðbót við liðið.“

Aðspurður um afdrif körfuboltans í vetur segist Baldur klárlega hafa viljað klára úrslitakeppnina. „Mér fannst maður vera með lið sem, ef allt hefði smollið, hefði klárlega getað farið alla leið. Mér fannst góður andi í liðinu og að það gæti gert góða hluti í úrslitakeppninni en við munum aldrei komast að því,“ segir hann.

Þá er bara að horfa til næsta tímabils og halda áfram því góða starfi sem körfuboltasamfélagið er að gera í Skagafirðinum og út um allt land þar sem stuðningsfólkið er víða.

Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir