Níu kúabændur kærðir
Frá því var greint á heimasíðu Matvælastofnunar fyrir nokkru að níu kúabændur hafi verið kærðir eftir að stofnunin hafði þurft að hafa afskipti af nokkrum kúabændum vegna skorts á útivist nautgripa þeirra. Málin eru nú komin til lögreglu og falla utan upplýsingalaga og því ekki upplýst hvaðan bændurnir eru.
Flestir kúabændur telja útivist nautgripa sjálfsagðan hlut en upp á það vantar hjá einhverjum en samkvæmt reglugerð um aðbúnað nautgripa skal tryggja öllum gripum, nema graðnautum eldri en sex mánaða, átta vikna útivist hið minnsta ár hvert. Í lögum um dýravernd segir að tryggja skuli dýrum eðlilegt frelsi til hreyfingar samkvæmt viðurkenndri reynslu og þekkingu. Matvælastofnun telur að þeir sem byrgja gripi sína inni allt árið séu að brjóta reglugerð um aðbúnað nautgripa sem og ákvæði dýraverndunarlaga.
Steinþór Arnarson lögfræðingur hjá MAST segir eftirliti þannig háttað að MAST fer yfir sumarið í eftirlit á kúabúin og gerir athugasemd við að gripir séu ekki úti auk þess sem frestur er gefin til að setja gripina út. Að fresti loknum er kúabúið aftur tekið út. Þá kannaði MAST einnig í haust hvort nokkuð hefði breyst á þeim búum sem ekki höfðu sett út gripina.
Steinþór segir að MAST hafi náð athygli bænda með það að setja gripina út og hafa margir orðið við tilmælum MAST án þess að það hafi kostað skriflegar áskoranir og fresti.
-Sumir fengu kannski bréf frá okkur en ætluðu hvort sem er að setja út. Það er því erfitt að vita hversu margir hafa orðið við kröfum um útvist nautgripa gagngert fyrir tilstilli MAST, segir Steinþór.
Viðurlög við brotum á lögum um búfjárhald eru sektir og fangelsi ef miklar sakir eru og viðurlög við brotum á lögum um dýravernd eru sektir og fangelsi allt að tveimur árum.