Njarðvík hafði betur í uppgjöri toppliðanna

Margur er knár þótt hann sé smár. Eva Rún tók flest fráköst allra í Njarðtaks-gryfjunni þrátt fyrir að vera sennilega lágvaxnasti leikmaðurinn á vellinum. Hér lendir hún á Keflavíkurvegg í leik í Síkinu á dögunum. MYND: HJALTI ÁRNA
Margur er knár þótt hann sé smár. Eva Rún tók flest fráköst allra í Njarðtaks-gryfjunni þrátt fyrir að vera sennilega lágvaxnasti leikmaðurinn á vellinum. Hér lendir hún á Keflavíkurvegg í leik í Síkinu á dögunum. MYND: HJALTI ÁRNA

Stólastúlkur renndu í Njarðvík í gær þar sem þær léku við lið heimastúlkna í Njarðtaks-gryfjunni. Lið Tindastóls náði frábærum 13-0 kafla í öðrum leikhluta en leiddu þó aðeins með tveimur stigum í hléi. Í lokafjórðungnum reyndust Njarðvíkingar sterkari og sigruðu að lokum með tíu stigum, lokatölur 66-56, og náðu þar með toppsæti 1. deildar af liði Tindastóls en bæði lið eru með 12 stig.

Það voru Tess, Marín Lind, Karen Lind, Telma Ösp og Kristín Halla sem skipuðu byrjunarlið Tindastóls. Í liðið vantaði Hrefnu Ottós sem spilað hefur vel fyrir lið Stólana á tímabilinu. Heimastúlkur gerðu fimm fyrstu stigin í leiknum og þær höfðu frumkvæðið í fyrsta leikhluta. Staðan var 18-13 að honum loknum en Stólastúlkur komu grimmar til leiks í öðrum leikhluta og náðu 13-0 áhlaupi þar sem Valdís Ósk setti niður þrjá þrista á tveggja mínútna kafla. Staðan þá orðin 18-26 og Stólarnir héldu forystunni fram að hléi en það voru þó heimastúlkur sem nýttu lokamínútur hálfleiksins vel og minnkuðu muninn í þrjú stig, 28-31, fyrir hlé.

Það var allt stál í stál í þriðja leikhluta og varnarleikurinn í fyrirrúmi. Lið Njarðvíkur jafnaði strax í byrjun og heimastúlkur höfðu yfirleitt nauma forystu út leikhlutann, enda lítið skorað, en það var Valdís Ósk sem jafnaði leikinn fyrir Tindastól, 40-40,  með 3ja stiga skoti þegar skammt var eftir af leikhlutanum. Njarðvíkingar náðu undirtökunum í upphafi fjórða leikhluta en Stólastúlkur héldu þeim þó við efnið. Vilbjorg Jónsdóttir kom liði Njarðvíkur í 50-45 eftir þrjár mínútur og skömmu síðar var munurinn kominn í sjö stig. Gestirnir voru þó ekkert á því að gefast upp og Karen Lind minnkaði muninn í þrjú stig þegar tvær mínútur voru til leiksloka. Nær komust stelpurnar þó ekki því þeim tókst ekki að skora á lokakaflanum en lið Njarðvíkur jók muninn í tíu stig og sigraði því sem fyrr segir 66-56.

Auk þess að vera án Hrefnu var það auðvitað helslæmt fyrir lið Tindastóls að Tess Williams náði sér engan veginn á strik og var langt frá sínu besta. Hún var aðeins með tíu stig og þrjú fráköst í leiknum sem er ekki það sem við eigum að venjast á hennar bæ. Valdís Ósk var stigahæst með 12 stig, allt þristar, Telma Ösp og Karen Lind voru með níu stig og Marín Lind skilaði átta stigum. Þá kom Eva Rún sterk til leiks, gerði sex stig og tók tólf fráköst þó varla sé hægt að segja að sentimetrarnir þvælist fyrir henni. Lið Tindastóls setti aðeins niður 12 skot í 39 tilraunum innan teigs en þær hirtu fleiri fráköst en heimastúlkur í leiknum. 

Lið Njarðvíkur og Tindastóls eru bæði með 12 stig eftir níu leiki en 1. Deild kvenna er hnífjöfn því lið Fjölnis, ÍR og Keflavíkur b eru öll með 10 stig eftir átta leiki. Um næstu helgi verður tvíhöfði í Síkinu þegar Tindastóll og Grindavík b mætast í tveimur leikjum, fyrst á laugardeginum kl. 18:00 og síðan kl. 13:00 á sunnudegi. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir