Nokkrar rekstrareiningar Svf. Skagafjarðar komnar verulega fram úr fjárhagsáætlun ársins
Á fundi byggðarráðs Svf. Skagafjarðar fyrir skömmu voru lagðar fram til kynningar tölulegar upplýsingar um rekstur sveitarfélagsins og stofnana fyrir tímabilið janúar-ágúst 2010. Byggðarráð óskaði eftir skýringum frá viðkomandi sviðsstjórum varðandi þá rekstrareiningar sem eru komnar verulega fram úr fjárhagsáætlun ársins.
Þær upplýsingar fengust hjá fjársýslusviði sveitarfélagsins að það séu nokkrir málaflokkar sem eru ekki innan fjárhagsáætlunar en skýringar geta verið að áætlun ársins sé ekki dreift rétt á mánuði, tekjur séu lægri en áætlað var eða rekstrargjöld hærri en áætlun gerði ráð fyrir.
-Helsti vandi sveitarfélagsins er að aðalsjóður er með halla eftir fyrstu átta mánuði ársins sem nemur 211 milljónum króna, en áætlun gerði ráð fyrir 120 milljóna króna halla á þessum timapunkti ársins. Þarna munar 91 milljón króna og 74 milljóna króna lægri skatttekjur skýra þennan mun að mestu. Skatttekjurnar eiga að standa undir þessum rekstri og því er brýnt að lækka rekstrargjöld til þess að ná jöfnuði, segir Margeir Friðriksson fjármálastjóri sveitarfélagsins.
Þegar A-hluti sveitarsjóðs er skoðaður í heild sinni þá er halli þessa tímabils 237 milljónir króna, sem er 53 milljónir króna hærra en áætlun tímabilsins gerir ráð fyrir. Samantekinn rekstur A og B hluta sveitarsjóðs sýnir rekstrahalla að upphæð 154 milljónir króna, en áætlun gerir ráð fyrir 188 milljóna króna hallarekstri á sama tíma. Er það örlítið ljós í sortanum. Þessar tölur eru teknar beint úr bókhaldi sveitarfélagsins og eru óendurskoðaðar.