Norðlenskur nágrannabikarbardagi í Síkinu

Áfram Tindastóll! MYND: HJALTI ÁRNA
Áfram Tindastóll! MYND: HJALTI ÁRNA

Það verður væntanlega hart barist í kvöld í Síkinu þegar lið Tindastóls og nágranna okkar í Þór Akureyri mætast í átta liða úrslitum Geysis-bikarsins. Sigurvegarinn hlýtur að launum miða á mögulega helgarferð í Laugardalshöllina þar sem undanúrslitaleikir og úrslitaleikur keppninnar fara fram um miðjan febrúar.

Stuðningsmenn Tindastóls eru hvattir til að fjölmenna og styðja sína menn gegn liði Þórs sem hefur heldur betur risið upp á afturfæturna í síðustu leikjum. Íþróttahúsið á Króknum verður opnað kl. 18 og að sjálfsögðu verða hinir heimsfrægu hamborgarar grillaðir á staðnum.

Þrír leikir fóru fram í Geysis-bikarnum í gærkvöldi. Stjarnan sigraði Val, Grindavík lagði lið Sindra á Höfn og þá kom lið Fjölnis skemmtilega á óvart og skellti stórliði Keflvíkinga. Í hádeginu var síðan dregið í Geysis-bikarnum og er ljóst að sigurvegarinn í leik Tindastóls og Þórs í kvöld mætir bikarmeisturum Stjörnunnar í Höllinni og sennilega er leikurinn miðvikudaginn 12. febrúar kl. 20:15. Grindavík og Fjölnir mætast í fyrri viðureign undanúrslitanna fyrr um kvöldið.

Leikur Tindastóls og Þórs hefst kl. 19:15 í kvöld – allir í Síkið og áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir