Nú er sumar, gleðjist gumar, gaman er í dag“[1] Pistill Byggðasafns Skagfirðinga.

Brennivínskútur (BSk-117) úr eik. Gjarðir hafa verið fjórar, en tvær hafa týnst. Blýstútur er á miðjum belg en tappann vantar. Á botn kútsins eru stafirnir ÞSD útskornir og á loki eru stafirnir JE, sem sennilega er fangamark Jónasar Einarssonar frá Geldingaholti (1812-1883). Kúturinn kom á safnið frá Stóru-Seylu og er  í sýningu safnsins í gamla bænum í Glaumbæ.
Brennivínskútur (BSk-117) úr eik. Gjarðir hafa verið fjórar, en tvær hafa týnst. Blýstútur er á miðjum belg en tappann vantar. Á botn kútsins eru stafirnir ÞSD útskornir og á loki eru stafirnir JE, sem sennilega er fangamark Jónasar Einarssonar frá Geldingaholti (1812-1883). Kúturinn kom á safnið frá Stóru-Seylu og er í sýningu safnsins í gamla bænum í Glaumbæ.

Sumardagurinn fyrsti hefur verið haldinn hátíðlegur um aldir. Hann er á fimmtudegi á bilinu 19.-25. apríl. Dagsins er getið í elstu heimildum, s.s. lögbókunum Grágás og Jónsbók (frá þjóðveldisöld), þá kallaður sumardagur eða sumardagur hinn fyrsti. 

Líklega hafa Íslendingar haldið upp á daginn frá fyrstu tíð með mat og drykk og virðist hann hafa gengið næst jólahátíðinni sjálfri í hátíðleika. Reyndar er ekki fjarri lagi að hugsa sér að Sumardagurinn fyrsti hafi verið álitinn eins konar áramót á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, enda sést ekki getið um áramót í nútíma skilningi í heimildum. Líkt og á jólunum voru víða aðeins unnin helstu nauðsynjaverk þennan dag, s.s. mjaltir, matreiðsla og gegningar. Táknræn störf voru sumstaðar unnin en þá var gripið í vorverk (aðeins hafist handa, en ekki klárað), t.d. túnávinnslu og átti það að boða athafnasemi á komandi sumri. Sumir hleyptu innifóðruðum skepnum út til að heilsa sumrinu og þótti góð skemmtun að fylgjast með dýrunum ærslast um velli. Þennan dag voru börn og fullorðnir hvattir til leikja og fólk gerði sér glaðan dag saman þegar vel viðraði, nágrannar og vinir. [2]

Heimildamenn sem uppi voru um aldamótin 1900 hafa sagt frá því að á Sumardaginn fyrsta var vel veitt af ýmsum kræsingum, s.s. hangiketi, magálum og lundaböggum og grjónagraut með rúsínum og rjóma. Kaffi og súkkulaði var og haft til drykkjar og lummur, pönnukökur og fleira í meðlæti.[3] Stundum var áfengi haft við hönd: „Víða var og sent í kaupstað fyrir sumarmálin til þess að fá sér á kút, því að þá var oftast tekið að gerast tómlegt heima,“[4] segir Hrafnagils-Jónas. Mögulega á kút eins og þann sem sjá má á meðfylgjandi mynd.

Á Sumardaginn fyrsta tíðkaðist að fólk gæfi hvort öðru gjafir, en sumargjafir eru af eldri rótum runnar en jólagjafir hér á landi. Oft voru það foreldrar sem gáfu börnum sínum og maka gjafir, og stundum gáfu húsbændur vinnuhjúum sínum. Flestar voru gjafirnar heimaunnar en nærri kaupstöðum, sér í lagi eftir síðari hluta 19. aldar, voru þær oft aðkeyptar.[5]

Margir skemmilegir siðir tengjast sumardeginum, þ.á.m. gamansiðurinn að láta svara sér í sumartunglið (næsta tungl á eftir páskatungli). Þá átti fólk að þegja þegar það bar tunglið augum og bíða eftir að vera ávarpað, en svar tunglsins átti að vera eins konar véfrétt um það sem koma skyldi. Víðast hvar á landinu veitti fólk því eftirtekt hvort sumar og vetur frysu saman. Margir settu (og setja enn) ílát með vatni út fyrir dyrnar aðfaranótt sumardagsins og vitjuðu snemma morguns. Alla jafna þótti góðs viti ef vatnið var frosið að morgni dags.[6] 

Gamall siður er að óska heimilisfólki og öðrum gleðilegs sumars. Hér fylgir ein af elstu persónulegu sumarkveðjum sem varðveist hefur, frá 1817, frá Sigurði Péturssyni, sýslumanni, til Sigurðar Thorgrímsen, landfógeta:

Elskulegi landfógeti!
:,: lastið ekki það eg gel:,:
heldur bið ég blíður meti
bögu þá af hendi sel:
Elski yður guð og gumar,
gleðilegt og indælt sumar,
jafnan yður vegni vel!!![7]

Gaman þætti okkur að fá ábendingar frá Skagfirðingum um gamla og nýja siði sem tengjast Sumardeginum fyrsta og upplýsingar um sumargjafir sem fólk hefur fengið í gegnum tíðina. Slíkar upplýsingar gefa okkur mögulega betri innsýn í eðli og umfang sumargjafa á 20. og 21. öldinni. Upplýsingarnar má senda á netfangið: ingakatrin@skagafjordur.is

Gleðilegt sumar!
Inga Katrín D. Magnúsdóttir

 

[1] Upphaf ljóðsins „Sumar“ eftir Steingrím Thorsteinsson/ https://www.snerpa.is/allt_hitt/textasafn/Sumar/

[2] Árni Björnsson, Saga daganna. (1993). Mál og menning, Reykjavík. Bls. 31-39.

[3] Sama heimild. Bls. 31-37.

[4] Jónas Jónasson, Íslenskir þjóðhættir (1934). (Einar Ólafur Sveinsson bjó til prentunar). Bókaútgáfan Opna, Reykjavík. Bls. 219.

[5] Árni Björnsson, Saga daganna. (1993). Mál og menning, Reykjavík. Bls. 37.

[6] Sama heimild. Bls. 40-43.

[7] Sama heimild. Bls. 38.

Áður birst í 16. tbl. Feykis 2019

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir