Nú verða ríki og sveitarfélög að standa þétt saman!

Við verðum að sýna því skilning að ríkisstjórnin er ekki búin að ganga frá samningum við Alþjóða  gjaldeyrissjóðinn og ýmislegt fleira, sem miklu máli skiptir, er í lausu lofti. Þess vegna tek ég ekki undir gagnrýni á ráðherrana tvo fyrir að meintan skort á upplýsingum. Þvert á móti ber ég blak af þeim og skil aðstæður þeirra. Það þjónar enda engum tilgangi að stofna til núnings við ríkið af þessu tilefni,“ segir  Halldór Halldórsson, formaður Sambands  íslenskra sveitarfélaga, að lokinni fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í Reykjavík, þeirri fjölmennustu sem um getur fyrr og síðar.

Sumum ráðstefnugestum þótti ástæða til að lýsa vonbrigðum með ræður fjármálaráðherrans, Árna M. Mathiesens, og sveitastjórnarmálaráðherrans, Kristjáns L. Möller, á ráðstefnunni í gær, og segja að þar hefði fátt eða ekkert bitastætt komið fram. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga er á hinn bóginn þeirrar skoðunar að ráðherrarnir hafi eðli máls samkvæmt ekki verið í stöðu til að segja meira en þeir þó sögðu. Aðalatriðið sé hins vegar samstarf og samvinna forystumanna hins opinbera út á við og inn á við næstu misserin.

Samstarfið í Ráðhúsi Reykjavíkur til fyrirmyndar
„Forysta sveitarfélaganna verður að vinna þétt og náið með ríkisstjórninni, enda eru sveitarfélögin hluti af „hinu opinbera“ í landinu. Þetta er líka í samræmi við sameiginlega yfirlýsingu ríkisins og sveitarfélaganna frá 10. október síðastliðnum. Þar var talað um mikilvægi þess að einhugur og samheldni ríki innan sveitarstjórna og ekki af ástæðulausu. Tilefnið var ekki síst það að við höfðum frétt af mjög svo eftirtektarverðu samstarfi meirihluta og minnihluta í borgarstjórn Reykjavíkur vegna aðgerðaráætlunar gegn efnahagskreppunni, sem Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri lýsti síðan vel hér á ráðstefnunni. Hér kom líka fram að fylkingar í mörgum fleiri sveitarfélögum, þar sem tekist hefur verið á vel og lengi, slíðruðu sverðin og sneru bökum saman. Og vel að merkja: Íbúarnir kunna vel að meta samstöðuna og eru mjög ánægðir með breytt viðhorf fulltrúa sinna í sveitarstjórnum. Þarna skapast með öðrum orðum grunnur að nauðsynlegri og breiðri samstöðu samfélagsins alls gegn erfiðleikum og aðsteðjandi vandamálum.“
Endurskoðun fjárhagsáætlunar ársfjórðungslega
Halldór lýsti því yfir um leið og hann sleit fjármálaráðstefnunni að fljótlega, ef til vill strax í næstu viku, myndu sveitarstjórnarmenn fá boðskap frá forystusveit Sambands íslenskra sveitarfélaga varðandi viðmið og vinnubrögð við fjárhagsáætlun ársins 2009. Þá kom fram í máli margra á ráðstefnunni að nokkuð vantaði upp á sameiginlegan skilning á því hvað hugtakið „grunnþjónusta sveitarfélags“ nákvæmlega þýddi. Samband íslenskra sveitarfélaga ætlar að leitast við að skilgreina grunnþjónustuna, svo ekkert fari á milli mála.
„Við drögum saman það sem fram kom í erindum og umræðum á fjármálaráðstefnunni og nýjustu upplýsingar af sameiginlegum vettvangi sveitarfélaga og ríkis og af vettvangi fjármálastjóra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og setjum upp „sviðsmyndir“ (scenario) til að miða við. Slíkt stjórntæki auðveldar mönnum að forgangsraða og setja niður hvað sé mikilvægast að verja á vegum sveitarfélaganna, hvað næstmikilvægast og svo framvegis. Þegar kemur svo að því að hagræða er  betur hægt að átta sig hvort sé verið að ganga nærri sjálfri grunnþjónustunni sem ætlunin er að slá skjaldborg um.“
 „Sviðsmyndirnar“ eru með öðrum orðum leiðbeiningar um hvernig sveitarfélögin geti reynt að nálgast niðurstöðu varðandi tekjur og gjöld, til að ákveða niðurskurð útgjalda annars vegar og hugsanlegan tekjuauka hins vegar með því að hækka þjónustugjöld og skatta. Það er hins vegar meira en að segja að hækka gjöld við aðstæður sem nú ríkja. Halldór Halldórsson segir að allt sé opið í þeim efnum en í sínum huga gangi sú formúla ekki upp að tekjur sveitarfélaga lækki, útgjöld vegna velferðarmála stóraukist og kallað sé svo á framkvæmdir, án þess að til komi viðbótartekjur.

„Ég get hreinlega ekki svarað þeirri spurningu núna hvað beri að gera í gjaldskrár og skattamálum.  Lykilatriði í því eru samræmdar aðgerðir sveitarfélaga annars vegar og þeirra og ríkisins hins vegar. Líklegast er að flest sveitarfélög verði keyrð í gegnum næsta ár  með hallarekstri. Ráðherra sveitastjórnarmála hefur breytt reglugerð sem heimilar sveitarfélögum að leggja fram fjárhagsáætlun 2009 með halla.  Ríkið getur fjármagnað halla á sínum rekstri en sveitarfélögin síður. Fram hjá þeirri staðreynd getur enginn horft. Hvað sem því líður er ljóst að við búum við ótrúlega óvissu og erum á leið inn í mjög óvenjulegt ár. Gera má ráð fyrir að sveitarfélögin endurskoði fjárhagsáætlanir sínar ársfjórðungslega.“

Fleiri fréttir