Ný stjórn í starfsmannafélagi Hólaskóla

Á vef Hólaskóla er sagt frá því að Árni Gísli Brynleifsson, Guðmundur B. Eyþórsson, Aldís Axelsdóttir og Helgi Thorarensen ásamt Gunnari Óskarssyni voru kosin í stjórn Starfsmannafélags Hólaskóla á aðalfundi sem haldinn var á þrettándanum. Árni Gísli og Gunnar eru í varastjórn.

Mæting á fundinn var góð þrátt fyrir og jafnvel líka vegna slæms veðurs. Gulrótin lokkaði hugsanlega ýmsa en hún var í formi smákaka og kakós!

Aðalfundarstörf gengu vel fyrir sig og voru bæði reikningar og skýrsla stjórnar samþykkt einróma. Gustað hefur af stjórninni og er ekki frá því að hún sé nokkuð góð með sig. Starfið hefur verið öflugt á tímabilinu og stendur uppúr gangan langa á Elliðann og sömuleiðis vissuferð í Lónkot og víðar. Til að fræðast betur um starfið má skoða skýrslu stjórnar hér. Fjárhagsstaða félagsins er með ágætum.

Í fráfarandi stjórn áttu sæti: Claudia Lobindzus formaður, Guðmundur B. Eyþórsson gjaldkeri og Sólrún Harðardóttir ritari. Í varastjórn voru: Hlín C.M. Jóhannesdóttir og Gunnar Óskarsson.

Fram kom á fundinum að miklar vonir og væntingar séu bundnar við nýja stjórn og það starfsár sem nú er að hefjast. Vonandi sjá sem flestir sér fært að taka virkan þátt í starfi félagsins og finna sér sem flest við sitt hæfi.

Fleiri fréttir