Nýprent heldur utan um alla viðburði á Norðurlandi vestra

SSNV og Nýprent hafa gert með sér samkomulag um að Nýprent haldi utan um nýja viðburðasíðu sem auðveldar íbúum Norðurlands vestra að fylgjast með öllu því fjölbreytta mannlífi og viðburðum sem fram fara á svæðinu. Verkefnið er hluti af áhersluverkefnum SSNV og byggir á Sóknaráætlun landshlutans þar sem eitt af meginmarkmiðum er að auka sýnileika viðburða og efla samfélagslíf.

Öflugt menningarlíf er á Norðurlandi vestra en nú á tímum eru þær leiðir sem notaðar eru til að auglýsa dagskrár oft og tíðum blessaðir samfélagsmiðlarnir. Þar kostar ekkert að auglýsa en það getur kostað listafólkið meira að auglýsa ekki víðar. Og þó sagt sé frá einhverju á einhverri Facebook-síðu þá er bara alls ekkert víst að margir sjái auglýsinguna. Þannig hefur til dæmis uppistand með Ara Eldjárn og Pétri Sigfúsi farið algjörlega framhjá mörgum sem hefðu sannarlega haft áhuga á að mæta. Sömuleiðis hinir ýmsu tónleikar viðs vegar um Norðurland vestra. Oft rekst fólk á auglýsingar um viðburði á Facebook þegar viðburðurinn er liðinn. Nú er semsagt hugmyndin að fólk geti sótt upplýsingar um viðburði á svæðinu á einn góðan stað. Til að síðan virki sem best þarf fólk að vera duglegt að senda inn upplýsingar um viðburði.

Skoðaðu eða skráðu inn viðburði

Viðburðasíðuna má finna á Feyki.is, hægra megin á síðunni. Þar birtast skráðir viðburðir í tímaröð og með því að smella á yfirlit er hægt að skoða alla skráða viðburði á einum stað. Einnig er hægtað smella á Senda inn viðburð og senda þannig upplýsingar um viðburð. Þjónustan er í boði án endurgjalds. Nánar er farið yfir hvernig koma má dagskrá á framfæri í auglýsingu í Sjónhorni vikunnar og væntanlega í Feyki í næstu viku.

Auk þess mun Nýprent birta komandi viðburði í Sjónhorninu, vikublaði sem dreift er reglulega til heimila á svæðinu.

Íbúar eru hvattir til að nýta sér þessa nýju þjónustu og vonandi verður hún öllum til gagns við að efla tengsl og þátttöku í því fjölbreytta menningar- og samfélagslífi sem Norðurland vestra hefur upp á að bjóða.

Hér er slóð á viðburðasíðuna

 

 

Fleiri fréttir