Nýr heitur pottur í Varmahlíð
Heiti potturinn í sundlauginni í Varmahlíð hefur verið óvirkur frá því í kringum 10. september sl. og gestir því ekki getað nýtt sér hann lengi. Að sögn Indriða Einarssonar sviðstjóra veitu- og framkvæmdasviðs Svf. Skagafjarðar er ástæða bilunarinnar sú að vegna bilunar í stýrikerfi og mannlegra mistaka var of heitu vatni hleypt inn á pottinn sem varð til þess að sprungur komu í skel hans.
Það var lán í óláni að mistökin uppgötvuðust fyrir opnun laugarinnar þegar starfsmaður mældi hitastig í pottinum og engum varð meint af. Indriði segir að potturinn sem um ræðir hafi verið kominn til ára sinna og orðinn lélegur auk þess að kominn var tími á að skipta út lögnum að og frá pottinum. Fundinn var samskonar pottur sem kemur í stað þess gamla.
„Undirlag pottsins var lagfært með því að steypa undir hann undirstöður en gamli potturinn hafði verið lagður ofan á fyllingu. Með því að steypa undirstöður undir pottinn verður aðgengi að lögnum að og frá pottinum mun betra,“ segir Indriði en stefnt er að því að nýr pottur verði tekinn í notkun á næstu dögum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.